Það er kunnara en frá þurfi að segja, að tekist er í heilbrigðiskerfinu á um hverja krónu úr ríkiskassanum. Gríðarstór hluti ríkisútgjalda fer til heilbrigðismála og varla líður sá dagur að ekki birtist fréttir í fjölmiðlum um brotalamir í heilbrigðisþjónustunni sem rekja má til skorts á fjárveitingum.
Ákvörðun um uppbyggingu heilbrigðisþjónustu er pólitísk einsog önnur mannanna verk og sitt sýnist hverjum um þær leiðir sem velja skal. ViðÍslendingar höfum sem betur fer sammælst um kerfi velferðar þar sem ekki erspurt um efnahag og að allir eigi rétt á heilbrigðisþjónustu, óháð stétt eða stöðu.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kemur úr röðum Vinstri grænna og er vart ofmælt að segja að einkaframtakið eigi ekki upp á pallborðið hjá henni. Svo rammt kveður að þeirri pólitík ráðherrans að ólíklegustu aðilar líða fyrir það; t.d. rótgróin frjáls félagasamtök á borð við SÁÁ og sjálfseignarstofnanir um rekstur dvalar- og hjúkrunarheimila auk sjálfstætt starfandi sérfræðinga, svo dæmi séu tekin.
Ráðherrann virðist vilja hlaða öllum verkefnum á Landspítalann sem er löngu sprunginn.
En einn er sá rekstur innan heilbrigðisþjónustunnar sem heilbrigðisráðherra (og raunar fyrri ráðherrar á undan henni) virðist sjá algjörlega rautt yfir og það er rekstur Klíníkurinnar í Ármúla.
Ég veit ekki hvort það er vegna persónu Ásdísar Höllu Bragadóttur (þeirrar frábæru og hæfileikaríku konu) eða hvað veldur, en það er eins og öll skynsemi hverfi út um gluggann hjá ráðherranum þegar Klíníkin er annars vegar og pólitískar kreddur látnar ráða en ekki sanngirni og jafnræði.
Hvað þá heilbrigð skynsemi.
Ágætt dæmi mátti sjá um þetta í Morgunblaðinu um liðna helgi, þar sem blaðamaður skrifaði frásögn af því er hann fylgdi konu út til Svíþjóðar í liðskiptaaðgerð. Viðkomandi hafði verið lengi á biðlista eftir aðgerð og átti þess kost að fara til útlanda á kostnað ríkisins á grundvelli þriggja mánaða reglunnar, þ.e. ef sjúklingur kemst ekki í aðgerð innan þriggja mánaða á hann rétt á að sækja læknisþjónustu í öðru landi innan EES-svæðisins.
Þessi kona átti möguleika á að komast í samskonar aðgerð á Klíníkinni, en ríkið vill ekki greiða fyrir slíkar aðgerðir þar. Hún hefði því þurft að greiða kostnaðinn úr eigin vasa — 1,2 milljónir króna.
En ríkið hafði ekkert á móti því að konan færi á einkasjúkrahús í Svíþjóð þar sem aðgerðin kostar mun meira, eða 2 milljónir króna. Þar að auki greiðir ríkið ferðakostnað á Saga Class fyrir sjúkling og aðstandanda og kostnaðurinn því líklega tvöfalt meiri, en ef aðgerðin hefði verið í Ármúlanum.
Hvernig er hægt að verja þetta?
Fyrirgefiði, en hvaða della er þetta eiginlega?
Hvernig geta þingmenn stjórnarliðsins varið slíka meðferð á skattfé?
Hvernig getur verið betra fyrir heilbrigðiskerfið að senda sjúklinga í stórum stíl á sænsk einkasjúkrahús en ekki íslensk?
Tilgangurinn virðist augljós. Markmið heilbrigðisráðherrans (og líklega Vinstri grænna) er að reyna með öllum ráðum að drepa einkaframtakið í heilbrigðisþjónustu. Þess vegna má ekki undir neinum kringumstæðum semja við Ásdísi Höllu og hennar fólk, þótt öll heilbrigð rök standi til þess.
Klíníkin gæti vaxið og dafnað sem valkostur við ríkisreksturinn. Og jafnvel eytt biðlistum og linað þannig þjáningar fólks.
Að ekki sé minnst á sparnaðinn fyrir skattgreiðendur.
Það er algjörlega ótrúlegt að Sjálfstæðisflokkurinn og framsókn skuli taka þátt í þessu rugli.
Ætlar enginn að taka upp hanskann fyrir ríkissjóð eða einkaframtakið?
Meðan þetta viðgengst, er ekkert að marka orð þessa fólks um aðhald í opinberum rekstri og forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu.
Þau vita betur. En kjósa að aðhafast ekki neitt.
Það er beinlínis skammarlegt.