Dr. Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar er engum líkur og Kastljóssþáttur gærkvöldsins verður lengi í minnum hafður. Einar Þorsteinsson missti út úr sér í lok viðtalsins að Kári væri einfaldlega ruglaður. Sannarlega er það ekki hefðbundið að þáttastjórnandi gefi viðmælanda slíka einkunn (enda viðurkenndi Einar á samfélagsmiðlum að hafa bara misst þetta út úr sér) en Kári lét sér hvergi bregða og svaraði að margir tækju eflaust undir það.
En að öðru leyti er engin ástæða til að draga of víðtækar ályktanir af þessu viðtali, aðrar en þær að Kára hefur augsýnilega sárnað að Svandís heilbrigðisráðherra hafi hvergi getið þáttar Íslenskrar erðagreiningar eða starfsfólks fyrirtækisins í langri þakkarræðu á lokaupplýsingafundi Almannavarna á mánudag.
Honum mislíkar greinilega einnig að hann hafi ekki verið hafður með í ráðum þegar pólitíkin skipaði starfshóp ráðuneytisstjóra vegna opnunar landsins og var líklega þeirrar skoðunar (eins og margir fleiri innan heilbrigðiskerfisins) að sumt í vinnu þess starfshóps hafi verið þvert gegn ákvæðum sóttvarnalaga. Þá hefur Kári jafnframt fullan rétt á að finnast ekki í lagi að tilkynnt sé af hálfu stjórnvalda um aðkomu Íslenskrar erfðagreiningar að skimun í Leifsstöð, án þess að nokkur hafi spurt hann eða einhvern frá fyrirtækinu fyrst um það.
Og af því að Kári Stefánsson er einmitt Kári Stefánsson þá sprengdi hann enn einn sjónvarpsþáttinn í loft upp af þessu tilefni; sagði Íslenska erfðagreiningu hvergi ætla að koma að skimun í Leifsstöð og líkti heilbrigðisráðherranum við tíu ára freka stelpu (hann líkir henni við sjö ára freka stelpu í Viðskiptablaðinu) og segist vera búinn að blokka númer Þórólfs sóttvarnalæknis í símanum sínum.
Semsagt, algerlega klassískur Kári.
Flestu af þessu er hann vafalaust búinn að gleyma í dag. Hann náði hins vegar ætlunarverkinu, sem er að auglýsa rækilega fund sem Íslensk erfðagreining efnir til á eftir þar sem vísindamenn á borð við hann sjálfan, landlækni og sóttvarnalækni ásamt yfirlækni smitsjúkdóma hjá Landspítalanum flytja erindi og sitja fyrir svörum.
(Kannski maður ætti að mæta og spyrja spurninga?)
Enginn stjórnmálamaður er sjáanlegur í pallborðinu og Kári er búinn að leggja þá línu; látum sérfræðingunum eftir þetta verkefni.
Hann ætti hins vegar sem fyrst í dag að bakka með karlrembulegar yfirlýsingar sínar um heilbrigðisráðherrann og Svandís ætti um leið að færa rækilega til bókar þakkir og heiður til starfsfólks Íslenskrar erfðagreiningar fyrir framúrskarandi störf undanfarnar vikur, framlag sem var langt umfram það sem hægt er að ætlast til af einkafyrirtæki við slíkar aðstæður.
Þá verða allir sáttir og hægt að fylgjast með fróðlegum fundi og taka svo vitrænar ákvarðanir um framhaldið. Allir gera sér grein fyrir að landamærin verða ekki opnuð nema dr. Þórólfur og dr. Kári séu sáttir við það og treysti sér til að tryggja öryggi landsmanna.
Björn Ingi er ritstjóri Viljans.
Íslensk erfðagreining heldur fræðslufund um COVID 19 fimmtudaginn 28 maí, klukkan 17.
Dagskrá
Alma D. Möller landlæknir – Hin mörgu andlit COVID-19
Agnar Helgason mannerfðafræðingur – Ættartré og ferðasaga sjúkdómsíns
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar – Hversu víða fór veiran?
Már Kristjánsson yfirlæknir smitsjúkdómadeildar á LSH – Meðferð COVID sjúkdóms á Landspítala
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir – Leiðir út úr COVID
Eftir erindin verður gestum gefinn kostur á að spyrja fyrirlesarana.
Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir. Húsið opnar um 30 mínútum fyrir fundinn en boðið er uppá kaffiveitingar í anddyri.
Í einum af þremur sölum þar sem fundurinn er haldinn, er 2 metra fjarlægð milli stóla og geta þeir sem vilja gæta sérstakrar varúðar sest þar. Fólki er bent á að mæta tímanlega til að tryggja sér sæti.
Fundurinn verður í beinni útsendingu á Facebooksíðu Íslenskrar erfðagreiningar.