Karlrembulegur læknahroki í stað þess að ræða kjarna máls

Starfsfólk Landspítalans og heilbrigðiskerfisins alls hér á landi hefur sannarlega unnið þrekvirki í kórónuveirufaraldrinum. Í öllum alþjóðlegum samanburði höfum við staðið okkur framúrskarandi vel í því að bjarga mannslífum og forða alvarlegum veikindum og hryllingssögur frá sjúkrahúsum erlendis þar sem læknar og hjúkrunarfræðingar hafa þurft að neita fólki um læknisþjónustu eða velja á milli sjúklinga til að fara í öndunarvél hafa sem betur aldrei orðið nein vísbending um stöðuna hér. Göngudeild COVID-19 hefur hlotið verðskuldaða athygli fyrir að grípa fjölmarga sjúklinga áður en til alvarlegra veikinda kemur og í bólusetningum standa okkur fæstar þjóðir framar.

Það er þó ekki hægt að neita þeim staðreyndum að Landspítalinn er hvorki undir framlengdan faraldur búinn né daglegt álag hjá okkar fámennu þjóð. Þótt 20 mánuðir séu frá því faraldurinn hófst, er spítalinn enn átakanlega lítt búinn undir stór áföll og ótrúlega lítið virðist þurfa til að þar skapist neyðarástand. Þetta er auðvitað ekki boðlegt ástand, ekki síst þegar grípa þarf ítrekað til hertra samkomutakmarkana til þess að forða heilbrigðiskerfinu frá skipbroti. Þær aðgerðir eru gríðarlega kostnaðarsamar fyrir fyrirtæki og einstaklinga og samfélagið allt og gera að verkum, að nær engin plön er hægt að gera fram í tímann.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur verið berorður um þetta ástand lengi. Hann staðfestir að sóttvarnaaðgerðir gætu verið minna íþyngjandi ef ástandið á Landspítalanum væri ekki jafn alvarlegt og raun ber vitni. Hann hefur tekið allri umræðu um sín störf fagnandi og reynt að útskýra og rökstyðja sínar ákvarðanir, sem byggi fyrst og fremst á sóttvörnum. Hann hefur alltaf undirstrikað að það séu síðan stjórnvöld sem þurfi að vega og meta heildarmyndina og taka endanlegar ákvarðanir.

Í þessu ljósi valda skrif Tómasar Guðbjartssonar prófessors og yfirlæknis á skurðsviði Landspítalans vonbrigðum, en á fésbókinni í gærkvöldi reyndi hann að stökkva á hverfulan vinsældavagninn með því að tiltaka konur í Sjálfstæðisflokknum sérstaklega og gagnrýna þær fyrir baráttu fyrir einstaklingsfrelsi og að berja í falskar pólitískar bumbur. Með karlrembu og læknahroka sagði yfirlæknirinn efnislega að þessar ágætu konur ættu ekki að ræða mál sem þær hafi ekki vit á.

Þessi mynd fylgdi færslu Tómasar Guðbjartssonar yfirlæknis á fésbókinni í gærkvöldi.

Margt í þessum skrifum stenst enga skoðun. Til dæmis að tveir ráðherrar hafi kallað með óábyrgum hætti eftir því að allar takmarkanir yrðu afnumdar, þær Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra. Staðreyndin er að miklu fleiri töluðu á þann veg, t.d. allir formenn ríkisstjórnarflokkanna auk heilbrigðisráðherrans Svandísar Svavarsdóttur, enda samþykkti ríkisstjórnin öll að afnema takmarkanir að tilteknum tíma liðnum. Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar var sama sinnis og vildi gera þetta strax, sama sögðu margir fleiri.

Af hverju velur Tómas að tiltaka bara þessa tvö ráðherra? Er það kannski vegna þess að þær Áslaug Anna og Þórdís Kolbrún hafa leyft sér að benda á kjarna máls, sem er að heilbrigðisráðuneytið og Landspítalinn hafa ekki staðið sig nægilega vel í því að búa sig undir að faraldurinn geti dregist á langinn? Og er ekki bara margt til í þeirri gagnrýni, þegar nánar er að gáð?

Hvar eru hágæslurýmin sem áttu að vera komin og búið er að fjármagna? Af hverju er enn rætt um fráflæðisvanda þegar löngu er komið fjármagn til þess að létta á þeim þætti og fjöldi aðila búinn mánuðum saman að bjóðast til að létta á í þeim efnum með tímabundnum hjúkrunarrýmum? Af hverju er Landspítalinn sífellt að seilast eftir verkefnum sem sinnt er annars staðar í heilbrigðiskerfinu af einkaaðilum eða félagasamtökum, þegar hann hefur svo augljóslega meira en nóg með þau verkefni sem fyrir eru? Eru menn búnir að gleyma því hve illa Landspítalinn tók fyrst í aðstoð Íslenskrar erfðagreiningar þegar faraldurinn kom upp?

Getur verið að þarna blandist inn í hagsmunapólitík og hugmyndafræði? Það liggur fyrir að í heilbrigðisráðuneytinu hefur undanfarin ár verið lítil stemning fyrir framtaki einkaaðila í heilbrigðisþjónustu og skiptir þá engu hvort um er að ræða fyrirtæki eða félagasamtök. Það er eins og ríkisvæða eigi allt og reka miðlægt gegnum Landspítalann. Það er einmitt sú stefna sem nú er komin í þrot með tilkynningum spítalans sjálfs í dag þar sem almenningur er hvattur til þess að leita annað, t.d. á hina einkareknu Læknavakt eða einkareknar heilsugæslustöðvar.

Landspítalinn er ekki að sligast vegna tveggja tuga sjúklinga sem þar liggja með COVID-19. Slíkar tölur eiga ekki að kalla á neitt neyðarástand. Vandinn er miklu djúpstæðari og er á ábyrgð stjórnenda og stjórnvalda. Hann snýst bæði um skort á fjármagni og skort á stefnumörkun til framtíðar. Og innbyrðis valdabaráttu innan heilbrigðiskerfisins. Þessi vandi er ekki á ábyrgð starfsfólksins á spítalanum sem staðið hefur vaktina með miklum sóma.

Af hverju er ekki löngu búið að semja sérstaklega við hjúkrunarfræðinga um að ganga vaktir á gjörgæslunni með tvöföldum launum meðan á faraldrinum stendur? Það væri þjóðhagslega hagkvæmt. Af hverju er ekki búið að setja upp sérstakt farsóttarsjúkrahús, eins og áætlanir eru til um svo önnur starfsemi raskist ekki? Af hverju er alltaf verið að ræða að bjarga málum á spítalanum frá degi til dags, í stað þess að horfa á heildarmyndina?

Það er þetta sem þær Áslaug Arna og Þórdís Kolbrún leyfðu sér að ræða, með fullum rétti. Og fengu á sig hrútskýringu til baka frá yfirlækninum Tómasi. Við skulum ekki taka undir slíkan málflutning, því annars verðum við föst næstu misserin í eilífum sóttvarnarbjörgunaraðgerðum til þess að verja spítalann frá degi til dags í stað þess að ráða almennilega bót á vandanum.

Björn Ingi er ritstjóri Viljans og höfundur bókarinnar Vörn gegn veiru.

bjorningi@viljinn.is