Katrín og Bjarni: Þjóðin er komin með grænar bólur af þessu rugli

Eftir Björn Inga Hrafnsson:

Á lokametrunum fyrir síðustu alþingiskosningar bentu skoðanakannanir til að ríkisstjórnin væri að falla. Auglýsingar Sjálfstæðisflokksins um að Ísland væri land tækifæranna voru flottar, en fólk virtist vilja breytingar og kominn var upp leiði gagnvart þverpólitískri sáttastjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks þvert yfir pólitíska ásinn. „Hún hafði samt staðið sig vel í faraldrinum,“ sagði fólk og aðrir töldu Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra réttilega ekki eiga skilið að fá útreið í kosningunum eftir sköruglega framgöngu. Þess vegna náði stjórnin að halda velli með góðum endaspretti í kosningabaráttunni, fyrst og fremst með því að vara við hættu á verðbólgu samfara pólitískum glundroða. „Það skiptir máli hverjir fara með völd“ sagði Katrín og fólk keypti það. Sósíalistaflokkurinn þurfti að afpanta heilt sett af jakkafötum sem pöntuð höfðu verið fyrir nýjan þingflokk; VG hreinsaði það lausafylgi upp á lokametrunum og stjórnin hélt velli. Framsókn vann stórsigur, en hefur varla sést síðan.

Þessi sama ríkisstjórn og nú er í algjörri nauðvörn. Ekki aðeins gagnvart fólkinu í landinu, eins og skoðanakannanir sýna, heldur einnig sínu eigin fólki. Allir sem eiga einhver samtöl um pólitík vita að harðasta andstaðan nú við þessa ríkisstjórn er frá sjálfstæðisfólki um allt land. Fólk eru einfaldlega komið með grænar bólur yfir aðgerðaleysinu sem þetta stjórnarsamstarf býður upp á. Endalausar málamiðlanir, litlar framfarir og algjört skortur á framtíðarplani.

Ekki fór á milli mála að flokksráðsfundir VG og Sjálfstæðisflokksins um helgina áttu að lappa upp á ímyndina og sýna samstöðu og styrk. „Við ætlum að klára þetta verkefni“ voru skilaboðin. Það var og. Með fylgdu stjórnmálaályktanir sem sýna að flokkarnir eru ekki sammála um neitt. Sjálfstæðismenn risu úr sætum til að hylla dómsmálaráðherranna sem framfylgja nýju útlendingalögunum en VG segjast í ályktun fordæma framkvæmd sömu laga. Þeir samþykktu þau þó fyrir örfáum vikum. Nýr dómsmálaráðherra vill lokaðar flóttamannabúðir. Fyrrverandi dómsmálaráðherra segir mikilvægt að stjórnarflokkarnir „standi í lappirnar“. VG samþykkti ályktun þar sem flóttamannabúðum er hafnað.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ráða ráðum sínum á ráðherrabekk. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Bjarni Benediktsson segir að nú verði ríkisstjórnin að gera stórátak í orkumálum. Það geti ekki beðið lengur, enda erum við Íslendingar einir þjóða hættir að virkja. VG sló þær hugmyndir út af borðinu með ályktun um að hætta frekar að selja rafmagn í rafmyntavinnslu og skoða beri að segja upp stóriðjusamningum áður en virkjað verði frekar á kostnað náttúrunnar. Þetta fólk er einfaldlega ekki sammála um neitt, nema halda völdum.

Eina erindið í pólitík?

Er nema furða að almennir kjósendur, eða stuðningsmenn flokkanna finni grænar bólur spretta fram? Um hvað á þetta stjórnarsamstarf að vera áfram, annað en sýna fram á að Katrín og Bjarni geti klárað kjörtímabilið? Er það orðið þeirra eina erindi í pólítík?

Hvaða útreið haldið þið að Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn fái í næstu kosningum ef þetta samstarf heldur áfram með tilheyrandi verkleysi, almennum málfundaæfingum og yfirlýsingum út og suður? Stjórninni blæðir hægt og rólega út og það vita allir að þetta er löngu búið. En Katrín og Bjarni ætla að halda áfram, það er svo gott traust milli þeirra. Það er rétt sem Eiríkur prófessor Bergmann segir, að þetta sé orðið eins og hjá hjónum sem eru skilin en búa samt áfram saman. Fyrir börnin.

En það var þetta með verðbólguna og lífskjörin. Við áttum að kjósa ríkisstjórnina áfram fyrir tveimur árum til að forðast verðbólguna. Tryggja lágu vextina. Kanntu annan? Dýrtíðin er í hæstu hæðum, fréttir í gær sýndu 50-80% hækkun á verði nauðsynjavara á tveimur árum meðan laun hafa hækkað um 20%. Húsnæði er svo dýrt að neyðarástand er á leigumarkaði, það er ekkert í boði og snjóhengja vofir yfir þeim sem höfðu í bjartsýni sinni tekið óverðtryggð lán og trúað fyrirheitum stjórnmálamanna um breytta tíma. Allt þetta fólk er á beinustu leið í verðtryggingargildruna sem fyrri kynslóðir þekkja allt of vel af biturri reynslu.

Land tækifæranna er orðið svo dýrt að það er erfitt að lifa af í því. Seðlabankinn hækkar bara vexti og segist upplifa sig einmana í baráttunni. Það er ekki skrítið þegar fjármálaráðherrann segir ekki hlutverk ríkisstjórnarinnar að ná niður verðbólgu. Sami fjármálaráðherra og sagðist ætla að passa okkur fyrir verðbólgu. Átti ekki að skipta máli hverjir fara með völd?

Ríkisstjórnin þarf nú strax að sýna á sameiginleg spil og leggja fram raunhæfar aðgerðir um það sem þau eru þó sammála um og þarf að gera. Ef það er þá eitthvað. Annars eiga þau Katrín og Bjarni að horfast í augu við það sem blasir við okkur öllum, að þessi undarlegi rómans er á enda runninn og kominn tími til að dusta rykið af danskortinu.