Ekki hefur farið framhjá neinum sú útreið sem stjórnsýsla Seðlabanka Íslands hefur fengið hjá saksóknara, dómstólum, þingnefndum og Umboðsmanni Íslands undanfarin ár. Hæst ber svonefnt Samherjamál, þar sem ekki stóð steinn yfir steini í málatilbúnaði æðstu stjórnenda bankans sem hafa nú persónulega verið kærðir til lögreglu vegna framgöngu sinnar.
Af bréfaskiptum forsætisráðherra og seðlabankastjóra annars vegar og ummælum Umboðsmanns Alþingis hins vegar má ráða að þau mál séu ekki enn til lykta leidd og er beðið endanlegrar ákvörðunar forsætisráðherra um næstu skref. Hefur Umboðsmaður meðal annars getið þess, að hann muni ákveða frekari aðgerðir þegar sú ákvörðun liggur fyrir.
Það er þess vegna þyngra en tárum taki, að á vakt forsætisráðherrans (sem ég hef mjög miklar mætur á) skuli vera að þróast enn eitt stjórnsýsluklúðrið tengt Seðlabankanum; klúður sem setur framtíðarskipan nýs seðlabankastjóra í ótrúverðugt ljós og er til þess fallið að skapa úlfúð og tortryggni kringum þessa mikilvægu stofnun.
Það er ekki eitt heldur allt í ráðningarferli nýs bankastjóra. Fyrst er auglýst eftir einum bankastjóra samkvæmt gildandi lögum, en skömmu síðar eru samþykkt á Alþingi ný lög um sameiningu Seðlabankans og FME og búnar til nýjar stöður aðstoðarbankastjóra. Leitað er til fjölda manns til að taka sæti í hæfisnefnd. Margir segja nei takk, en niðurstaðan er sú að skipa tvær konur sem báðar hafa mikil tengsl við einstaka umsækjendur og önnur þeirra þar að auki stjórnarmaður í fjármálafyrirtæki sem á allt undir góðum samskiptum við Seðlabankann og FME. Hún var þar að auki skipuð í stjórn þess fyrirtækis af Bankasýslu ríkisins, sem er undir stjórn eins umsækjandans.

Eftir forvinnu, sem virðist hafa verið einstaklega yfirborðskennd og illa unnin, hefur nefndin raðað umsækjendum niður í flokka eftir hæfi þeirra og birt röksemdir fyrir því. Það er allt eftir öðru. Andmælabréfum rignir inn frá nálega öllum umsækjendum og í röksemdum nefndarmanna stendur ekki steinn yfir steini. Vegið er þyngra að vera útibússtjóri í Vestmannaeyjum en framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækis. Viðbótarkröfum er lætt við umfram lagaheimildir og auglýsingu. Rannsóknarskyldum er ekki sinnt. Engin tilraun gerð til að leggja sjálfstætt mat á fullyrðingar umsækjenda.
Í seinni tíð er ekki algengt að ritstjórar Fréttablaðsins og Morgunblaðsins sameinist í gagnrýni sinni, en það hefur þó gerst í þessu máli. Eðlilega. Undir þá gagnrýni skal tekið hér. Best færi á því að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra leysi hina vanhæfu hæfisnefnd þegar frá störfum og byrji upp á nýtt með þeim fagmennskubrag sem verkefnið verðskuldar. Geri hún það ekki, ber henni skylda til að horfa framhjá niðurstöðum þessarar nefndar og leggja sjálfstætt mat á umsækjendur svo ráðningin verði hafin yfir vafa.
Ég hef þekkt Katrínu Jakobsdóttur lengi. Hún er heiðarlegur stjórnmálamaður. Ég hef enga trú á því að hún bregðist í þessu efni.