Kvefpest eða nýr faraldur? Fimm punktar um það sem er framundan

Það er ótrúlegt en satt, önnur jólin í röð geysar nýtt afbrigði kórónuveirunnar og smithraðinn vekur heilbrigðisyfirvöldum ugg. Farið er í aðgerðir til að fletja kúrfuna, enda þótt langflestir séu bólusettir og margir þríbólusettir. Við virðumst föst í einhverri tímavél sem hjakkar í sama farinu; það vantar bara að þriðju páskana í röð muni Víðir biðja okkur um að ferðast innanhúss. Margir eru gjörsamlega komnir með upp í kok af öllu saman og eðlilega er spurt: Hvað er eiginlega að frétta?

Hér eru fimm punktar:

  1. Núverandi reglugerð um samkomutakmarkanir rennur út á miðvikudag, 22. desember. Þess vegna stendur til að setja nýja (sem gildir fram í fyrstu eða aðra viku janúarmánaðar) og því miður verða þar stigin stór skref í samkomutakmörkunum sem margir vonuðu að myndu aldrei aftur sjást. Að öllum líkindum verður byrjun skólastarfs á öllum skólastigum ekki aðeins seinkað til 10. janúar, heldur má gera ráð fyrir að fjarkennsla eða mjög skert og hólfaskipt skólastarf komi aftur til sögunnar þar til einhver virkni er komin á bólusetningar barna sem stendur til í að bjóða upp á næstu daga. Þetta gæti þýtt að skólarnir fari ekki aftur á fullt fyrr en í febrúar í fyrsta lagi, enda munu margir foreldrar vilja halda börnum sínum heima þar til það versta er gengið yfir.
  2. Það er sprenging í smitum hér innanlands undanfarna daga, en samt er omrikón-afbrigðið bara rétt að mæta til leiks. Reynsla annarra þjóða sýnir að 1-2 vikur tekur fyrir afbrigðið að taka alveg yfir. Vísindamenn Imperial College í Lundúnum vilja ekki enn slá því föstu að omríkón sé vægara viðfangs en delta; segja bara enn of snemmt að segja til um það, en það sé miklu meira smitandi. Miklu, miklu meira smitandi. Þess vegna er gripið til 10-20 manna fjöldatakmarka í nálægum löndum, allt niður í 4 manna hámark heima við, eins og í Hollandi. Maður trúir því varla að þetta sé að gerast.
  3. Draumar um að hjarðónæmi náist á endanum hljóta að teljast í uppnámi þegar algengt virðist að fólk veikist af omríkon sem hefur áður fengið COVID-19 og að jafnvel tvöföld bólusetning veiti litla sem enga vörn. Þetta virðist þýða að virkni hvers bóluefnaskammts virðist aðeins vera 3-5 mánuðir og fyrst og fremst örvunarskammturinn verji gegn nýjum afbrigðum. Er furða þótt maður velti fyrir sér, hvort svo verði það fjórði skammturinn fyrir páska, fimmti fyrir sumarið og jólin að ári liðnu snúist um enn ein örvunarskammtinn gegn afbrigði sem enn hefur ekki litið dagsins ljós?
  4. Landsmenn munu reyna mikið til að sleppa við smit næstu daga til að bjarga jólum og áramótum, en þó er ljóst að mjög margir munu verða í einangrun eða sóttkví næstu daga og vikur. Fólk verður beðið um að vinna heima, samfélagið fer í hægari takt en í ljósi reynslunnar verður mikilvægt að halda íþróttastarfi gangandi, t.d. sundi og líkamsrækt. Þar fer ekki fram síður mikilvæg heilsuvernd en í sóttvörnunum. Við verðum að passa að drepa ekki alla úr leiðindum í viðleitni við að bjarga okkur frá pestarfjanda. Og alltaf erum við í neyðaraðgerðum til að verja stöðuna á Landspítalanum, nokkuð sem fyrir löngu hefði átt að vera búið að laga.
  5. Að mörgu leyti segja vísindamenn erlendis að omríkón sé eins og nýr heimsfaraldur. Það er ákveðinn skellur, svo vægt sé til orða tekið. Þess vegna heyrast háværari raddir þeirra sem mótmæla viðbrögðum okkar. Eðlilega. Við erum einmitt að minnast þess að tvö ár eru frá því COVID-19 kom til sögunnar í Wuhan í Kína. Hve langan tíma ævi okkar mun þessi faraldur vara? Enginn veit það, en tvö ár til viðbótar, jafnvel þrjú er ekki fjarri lagi. Er þá skemmst að minnast hinnar fornu kínversku bölbænar, sem hljóðar svo: „Megi sonur þinn lifa á sögulegum tímum“.

Björn Ingi er ritstjóri Viljans.