Alfreð Þorsteinsson sem borinn verður til grafar í dag, var lágvaxinn og dagfarsprúður maður. Hann var engu að síður risi í íslenskri pólitík og áhrifa hans og verka verður lengi minnst.
Ég fékk það hlutverk að taka við keflinu af honum sem leiðtogi framsóknarmanna í borgarstjórn Reykjavíkur og naut eftir það leiðsagnar hans og hollra ráða. Alfreð var inni í öllu; þessi lágværa rödd í símanum sem ræskti sig ótt og títt, en hafði alltaf eitthvað merkilegt að segja. Alfreð var á þessum árum fremstur í símaskránni í farsímanum mínum og í ófá skipti hringdu drengirnir mínir Hrafn Ágúst eða Eyjólfur Andri óvart í hann þegar þeir léku með síma föður síns. Aldrei var kvartað yfir því, enda Alfreð einstakur pabbi sjálfur og samband hans við dæturnar Lilju og Lindu til mikillar fyrirmyndar. Dæturnar tvær voru honum allt.
Ég minnist samstarfsins við hann með hlýju, það var aldrei lognmolla kringum Alfreð Þorsteinsson og hann sagði réttilega að óumdeilt fólk í pólitík gerði aldrei neitt. Sjálfur fékk hann rækilega að kenna á stormum sinnar tíðar, en enginn tekur frá Alfreð að hann náði árangri hvar sem hann fór; byggði upp og var stórhuga í verkum sínum. Andstæðingarnir þoldu hann ekki, en báru um leið óttablandna virðingu fyrir honum. Vissu sem var, að hann var háll sem áll og lét engan eiga neitt inni hjá sér.
Við annað tækifæri er hægt að rifja upp leiðsögn hans þegar allt sprakk í loft upp innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins eða þegar við Árni Magnússon, þáverandi framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, fórum með Alfreð á leynifund með Birni Bjarnasyni þegar Reykjavíkurlistinn virtist vera að liðast í sundur.
Alfreð Þorsteinsson var um áratugaskeið einn þekktasti stjórnmálaforingi okkar Íslendinga. Hann fór eigin leiðir, vissi hvert leið hans lá og kunni leikinn, eins og sagt er. En hann var líka góður kall, sannur fjölskyldumaður, vinur vina sinna og lét gott af sér leiða hvar sem hann fór. Það eru ekki slæm eftirmæli.
Blessuð sé minning hans.
Björn Ingi er ritstjóri Viljans.