Nei, það gengur ekki vel að bólusetja

Ég ræddi stöðuna í COVID-19 hér á landi og hættuna á fjórðu bylgju í útvarpsþættinum Harmageddon á X-977 í morgun. (Hægt að hlusta hér). Sama gerði ég á dögunum (sjá hér) þar sem ég sagði að mér þætti óskiljanlegt að við Íslendingar viljum ekki vera í fremstu röð þegar kemur að bólusetningum gegn COVID-19, rétt eins og við höfum verið almennt í vörninni gegn veirunni.

Ég hef bent á að sú ótrúlega staða sé uppi að íslenski heilbrigðisráðherrann Svandís Svavarsdóttir sé líklega sá evrópski stjórnmálamaður sem ákafast stendur vörð um bólusetningaráætlun Evrópusambandsins, jafnvel þegar flestir kollegar hennar innan aðildarlandanna eru löngu lagðir á flótta og búnir að lýsa áætluninni sem allsherjar klúðri og hneyksli. Og við erum ekki einu sinni í Evrópusambandinu! Forsætisráðherra Danmerkur og kanslari Austurríkis fóru á dögunum í heimsókn til Ísraels, þar sem búið er að bólusetja um 90% þjóðarinnar með bóluefni frá Pfizer, og Mette Fredriksen, forsætisráðherra Dana, sagði þar bóluefnaáætlun ESB alveg hafa brugðist og nú ætli Danir að grípa til eigin ráða til að tryggja hagsmuni þjóðarinnar, ekki síst ef þróa þyrfti fleiri kynslóðir bóluefna í framtíðinni gegn stökkbreyttum afbrigðum veirunnar.

Hvers vegna er ekki umræða á Alþingi um þetta? Hvers vegna treystum við í einu á öllu á áætlun Evrópusambandsins, sem allir eru sammála um að hafi brugðist? Af hverju tökum við ekki líka til eigin ráða? Af hverju undirgengumst við samkomulag um að mega ekki sjálf útvega okkur meira bóluefni frá þeim framleiðendum sem ESB hafði samið við? Hvernig fór það saman við íslenska hagsmuni?

Hvaða röð?

Þetta er meðal þeirra spurninga sem ég hef spurt sjálfan mig og aðra að, að undanförnu. Einhver kann þá að segja, að við eigum ekki að reyna að „troða okkur fram fyrir röðina“. En hvaða röð er það? Það er engin röð. Það eru öll lönd á útopnu að reyna að bólusetja sitt fólk. Bretar eru að nálgast að hafa bólusett 40% þjóðarinnar, Bandaríkjamenn bólusetja í tugmilljónavís og Serbar, sem eru umsóknarríki að ESB, hafa samið við Kínverja og Rússa um bóluefni, auk Evrópusambandsins. Þjóðverjar eru að ganga frá samningum við Rússa. Fleiri þjóðir mætti nefna. Þetta er skiljanlegt, þar sem ný bylgja blasir við um alla álfuna og með bresku, brasilísku eða suður-afrísku afbrigði sem virðast meira smitandi og leggjast frekar á yngra fólk en þær útgáfur af veirunni sem við höfum átt í höggi við hingað til.

Er einhver hneykslunaralda í heiminum uppi gegn Ísraelsmönnum, Serbum eða Bretum fyrir að vera duglegri en aðrir að útvega bóluefni? Ekki hef ég orðið var við hana.

Mette Frederiksen forsætisráðherra Dana.

Ég þekki 85 ára mann sem er bara búinn að fá fyrri skammtinn af sínu bóluefni. Faðir minn á að fá fyrri sprautuna í vikunni, en hann er 75 ára. Við erum ekki komin lengra en svo. Mikill fjöldi heilbrigðisstarfsfólks –– mörg þúsund manns ––er enn óvarinn og hvað þá allir þeir sem glíma við ýmsa undirliggjandi sjúkdóma. Það lætur nærri að 85% þjóðarinnar sé enn útsettur fyrir þessari veiru og þess vegna verða viðbrögðin jafn hörð og raun ber vitni, þegar glittir í nýja bylgju eða þegar skoðað er að slaka á aðgerðum á landamærunum.

Vandinn er nefnilega ekki sá að Íslendingar skilji ekki að það þurfi að koma hjólum atvinnulífsins í gang. Það skilja allir. Það vill enginn hafa landið hálflokað endalaust. Auðvitað vill fólk reyna að hafa samfélagið eins opið og hægt er. Það sem fólk vill hins vegar mest af öllu er að viðkvæmustu hóparnir verði varðir áður en einhver áhætta er tekin og helst að þorri þjóðarinnar fái bólusetningu og hjarðónæmi verði náð. Þá væri allt annað að takast á við framhaldið og hægt að slaka á margvíslegum takmörkunum.

Áætlanir og raunveruleikinn

Þess vegna verður nú að horfast við veruleikann. Það gengur allt of hægt að bólusetja. Markmið stjórnvalda um að þorri þjóðarinnar verði bólusettur á fyrri hluta ársins mun ekki nást. Ekki heldur markmið um að 190.000 manns verði bólusett fyrir lok júní. Nú er búið að færa það plan aftur um einn mánuð, eða til loka júlí, og ef það ætti að nást þyrfti að bólusetja frá og með deginum í dag tæplega fjögur þúsund skammta á hverjum einasta virka degi. Það er að óbreyttu ekki að fara að gerast, því við höfum ekki bóluefnið til þess.

Í hvert skipti sem ég spyr Þórólf sóttvarnalækni um þetta á upplýsingafundunum, fjarlægir hann sig áætlun stjórnvalda og viðurkennir að hann sjái ekki að hún sé raunhæf. Hann geti bara unnið út frá þeim staðreyndum sem fyrir liggi. Hann er enda fagmaður og ekki að hugsa um komandi alþingiskosningar.

Ekki vantar aðstöðuna í Laugardalshöllinni eða á heilbrigðisstofnunum út um land allt. Það er aðdáunarvert að fylgjast með öllu fagfólkinu sem stendur að bólusetningunni og hvernig framkvæmdin er. Þau gætu hins vegar annað miklu meiru en nú er og bólusetningarmaskínan er aðeins ræst út 1-3 daga í viku og alls ekki á fullum afköstum. Það er þyngra en tárum taki.

Ég veit til þess að forkólfar í íslensku atvinnulífi, menn með mikil alþjóðleg tengsl í lyfjafyrirtæki, hafa undanfarna mánuði reynt að hjálpa til og aðstoða við öflun bóluefnis. Sú aðstoð hefur kurteislega verið afþökkuð, því málin séu í réttum farvegi. Svandís Svavarsdóttir sagði enda á Alþingi nýverið að bólusetning gengi vel. Það er bara ekki rétt. Hún gengur allt of hægt og gangurinn er langt undir áætlunum sem stjórnvöld hafa sjálf birt.

17 þúsund manns eru fullbólusett

Á vef sóttvarnalæknis segir í dag að tæplega 17 þúsund manns hafi nú verið fullbólusett. Bólusetning sé hafin hjá ríflega 21 þúsund manns til viðbótar. Það er staðan. Það segir sig sjálft að sú staða er ekki boðleg ef við blasir mögulega ný bylgja eða aukin hætta á landamærunum. Hjarðónæmi miðast við 70% þjóðarinnar eða svo og við eigum enn langt, langt í land í þeim efnum. Og við ætluðum að vera búin að bólusetja 45-47 þúsund manns í marslok. Það er ekki heldur að fara að gerast.

Afhendingaráætlun til okkar, umfram mars er að mestu leyti enn í þoku. Það vantar ekki að samningar hafi verið gerðir, það eru bara engar dagsetningar á þeim. Því þarf Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra nú að hafa forystu um að kalla til hóp okkar allra besta fólks, úr opinbera geiranum, verkalýðshreyfingunni og einkaframtakinu, og fá hann til að koma þessum málum strax í betra horf. Ferðaþjónustan og atvinnulífið allt ætti ekki að linna látum fyrr en þetta er gert.

Og því fyrr því betra. Það má ekki frekari tíma missa. Þangað til væri líka best að segja okkur bara satt um stöðuna. Byrja á því.