Þing kemur saman í dag að loknu jólaleyfi og til stendur að ríkisstjórnin kynni nýjustu aðgerðir varðandi stöðuna í Grindavík. Yfir vofir að vantrausttillaga verður lögð fram á matvælaráðherrann Svandísi Svavarsdóttur og því eru örlagadagar framundan.
Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor segir í dag að stjórnarsamstarfinu „sé efnilega lokið“ og stjórninni hefur verið lýst margoft sem lifandi dauðri. Allir vita að samstarf þessara þriggja flokka á ekki lengur framtíðina fyrir sér, en spurningin hefur aðeins verið: Hvaða mál sprengir stjórnina?
Hún hefði allt eins getað sent Sjálfstæðisflokknum stutt sms og sagt: „Étiði skít, ég mana ykkur til að sprengja þessa ríkisstjórn.“
Vandséð er að álit Umboðsmanns Alþingis eitt og sér um hvalveiðar geri það. En öll framganga Svandísar í málinu ber þess merki, að hún sé að ögra samstarfsflokkum sínum og sjá hvað hún komist upp með. Hún hefur nú að eigin sögn „rýnt“ álitið í hálfan mánuð og haft yfir höfði sér eindregnar kröfur samstarfsflokkanna um að hún axli ábyrgð og geri ráðstafanir áður en þing komi aftur saman. Engin viðbrögð komu; ekkert útspil. Fyrr en í morgun að stutt færsla á Facebook birtist, þar sem skýrt er að ráðherrann ætlar sér ekkert að gera, segist ekki hafa brotið lög af ásetningi og dýravelferð hafi verið kveikjan að öllum hennar aðgerðum.
Hún hefði allt eins getað sent Sjálfstæðisflokknum stutt sms og sagt: „Étiði skít, ég mana ykkur til að sprengja þessa ríkisstjórn.“
En tekist er á um miklu fleira í samstarfinu. Minnumst ekki á orkumálin, stjórnkerfi fiskveiða eða útþenslu báknsins. Nóg er nú samt. Sjaldan hafa facebookfærslur valdið eins miklum pólitískum óróa og færsla Bjarna Benediktssonar um tjaldbúðir Palestínumanna á Austurvelli og stöðuna í hælisleitendamálum á föstudagskvöld. Þar var gagnrýni Bjarna á þá stefnu sem hefur verið rekin í málaflokknum svo hörð að Miðflokksmenn hefðu vart getað tekið dýpra í árinni.
Pistill Bjarna vakti mikla athygli og mikla reiði þeirra sem talað hafa fyrir opnum landamærum.
Pistill utanríkisráðherrans vakti jákvæð viðbrögð þingmanna á borð við Jón Gunnarsson og Ásmund Friðriksson. Hins vegar hefur það vakið athygli að margt áhrifafólk innan Sjálfstæðisflokksins, m.a. ráðherrar og þingmenn, eru uggandi yfir útspili Bjarna og lýsa sig jafnvel ósammála afstöðu formannsins.
Flestir efasemdamanna muni fylgja ef hin nýja stefna Bjarna verður ofan á. Það sama á við um þingflokk framsóknarmanna sem einu sinni sem oftar bíður átekta og mun fylgja sigurvegaranum.
Nú er því athyglin því fyrst og fremst á formönnum VG og Sjálfstæðisflokks, forsætisráðherranum og utanríkisráðherranum. Hvorugur ráðherrann hefur veitt viðtal þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fjölmiðla. Ríkisútvarpið upplýsti í gær, að það hefði ekki náð tali af utanríkisráðherranum á þessu ári! Jafnvel þeir þingmenn flokkanna sem eru gjarnastir á að segja sína skoðun hafa hafnað viðtölum.
Þetta setur stjórnina í meiri úlfakreppu en hún hefur lent í til þessa. Sjálfgefið er að Katrín Jakobsdóttir geti ekki tekið undir með Bjarna en að hún eigi auk þess engan kost á að gera lítið úr afdráttarlausum yfirlýsingum hans eða drepa málum á dreif. Allir slíkir tilburðir væru ekki aðeins niðurlægjandi gagnvart formanni Sjálfstæðislfokksins heldur myndu þeir æra bakland Vinstri grænna. Þetta er eitt af hjartans málum forsætisráðherrans og hún tekur harða umræðu um útlendingamál mjög nærri sér.
Um leið er Sjálfstæðisflokkurinn lentur í þeirri stöðu að ef hann fylgir ekki eftir skýru mati formannsins mun trúverðugleiki flokksins í málaflokknum hverfa með öllu. Formaður Miðflokksins hefur bent á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi leitt málaflokkinn í áratug og yfirlýsingar þeirra hafi jafnan reynst innihaldslausar. Þær séu fyrst og fremst til heimabrúks.
Það er því ekki skrítið að formenn og aðrir þingmenn stjórnarflokkanna hafi verið tregir til að tjá sig. Niðurstaðan er enda sú að hvorugur flokkurinn getur haldið andliti öðruvísi en að hinn missi sitt.
Allt gerist þetta á meðan að vantrauststillaga hangir yfir atvinnuvegaráðherra og sjálfstæðismenn héldu áfram að biðla til VG að leysa málið áður en þeir þurfa að greiða atkvæði um vantraust. Nú er svo von að verða að engu. Innan Sjálfstæðisflokks vita menn sem er, að ekkert svar er líka risastórt svar í sjálfu sér.
Þess vegna er staðan sú, að sá stjórnarþingmaður sem er rólegastur yfir þessu öllu er atvinnuvegaráðherrann, Svandís Svavarsdóttir. Hún er í pólitík; hún veit vel hvað hún er að gera. Hún veit að annað hvort verður Sjálfstæðisflokkurinn svínbeygður eða hún tekur sér stöðu sem píslarvottur í ríkisstjórn sem er hvort eð er á lokametrunum.
Lesendur eru því hvattir til að spenna beltin…