Á síðustu árum hefur orðið töluverð breyting á umræðunni á Íslandi. Hún er ómálefnalegri, hvassari og persónulegri en hún var og virðist sem flest sé leyfilegt. Þessu velti ég fyrir mér um daginn um leið og ég hrökk við þegar mætur maður, Eiríkur Rögnvaldsson prófessor, skrifaði þetta á fésbókina:
„Slökkti á sjónvarpinu þegar Kastljós byrjaði. Ég bara meika Sigmund Davíð ekki, alls ekki. Mér líður illa bæði í líkama og sál að hlusta á hann. Hrokinn, yfirlætið, yfirgangurinn, blekkingarnar, ruglið … ég hef aldrei áður lent í svona með nokkurn mann.“
Nú má Eiríkur auðvitað hafa hvaða skoðun sem er á Sigmundi Davíð eða öðrum stjórnmálamönnum — skárra væri það nú –, en mér þótti kristallast í ummælum hans vaxandi óþol í samfélaginu gagnvart þeim sem eru á öndverðum meiði.
Farið er í manninn en ekki boltann í auknum mæli, svo gripið sé til líkingamáls úr heimi knattspyrnunnar og einfalda útgáfan er einhvern veginn sú, að sá sem er ekki á sömu skoðun og maður sjálfur hlýtur að vera illa gefinn vitleysingur, svo það sé orðað mun kurteislegra en víða sést á Netinu þessa dagana.
Þetta sást mjög vel í umræðum um orkupakkann, þar sem margir stuðningsmenn og andstæðingar urðu sér til skammar með gífuryrðum. En þetta sést líka ágætlega í vaxandi viðleitni til að hjóla í þann sem er áberandi hverju sinni og hella úr skálum reiði sinnar fyrir viðkomandi eða leitast við að setja hann í neikvætt ljós.
Tökum nokkur dæmi:
Sr. Þórhallur Heimisson ætlar að halda stutt námskeið nk. laugardag um Biblíuna. Hann upplýsir á fésbók, að hann hafi fengið fjölda reiðilegra tölvupósta með stóryrðum og skömmum þar sem hann er atyrtur fyrir tiltækið.
Í alvöru?
Ung og glæsileg kona um þrítugt, sem getið hefur sér gott orð sem þingmaður, er gerð að dómsmálaráðherra. Á Netinu fljúga glósur um útlit hennar og aldur, reynsluleysi og talsmáta, jafnvel klæðaburð og hárgreiðslu.
Í alvöru?
Marglytturnar, hópur vaskra kvenna, ákvað að láta gott af sér leið og synda boðsund yfir Ermasundið og safna fé fyrir góðan málstað. Kynsystir þeirra kemur fram og sakar þær um athyglissýki og hræsni, segir þær saumaklúbb sem ekkert afrek hafi unnið og þar að auki hafi sumar þeirra notað skó úr plasti um borð í fylgdarskipinu.
Í alvöru?
Ungur og glæsilegur piltur um tvítugt tekur að sér hlutverk í auglýsingu frá banka, þar sem hann ræðir um fjármálalæsi ungs fólks. Í kjölfarið fer fram rannsókn á myndum af pilti á samfélagsmiðlum og fluttar stórar fréttir um að hann sé mikið fyrir merkjavöru og gangi um með dýrt úr.
Í alvöru?
Einn þekktasti hagfræðingur landsins, forseti Hagfræðideildar Háskólans og doktor í sínu fagi, er skipaður seðlabankastjóri. Hann kemur í viðtöl, en dagfarsprúðasta fólk híar á hann á samfélagsmiðlum fyrir að stama, segist ekkert skilja hvað hann segi nema hafa texta og ómögulegt sé að hafa svona tafsandi mann í jafn mikilvægu embætti.
Í alvöru?
Það er gömul saga og ný að við erum gleggri í að koma auga á bresti hjá öðrum en okkur sjálfum. Í Biblíunni er sagt frá Farísea nokkrum sem fór í helgidóminn og baðst fyrir:
„Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir með sjálfum sér: Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn: ræningjar, ranglætismenn, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður.” Lúk. 18. 11-12.
Þá er enn víða að finna Faríseana sem þannig hugsa. Nú –eins og þá– finnst þeim klárlega þeir tilheyra góða liðinu. Efast væntanlega ekki um það eina sekúndu.