Af samtölum við þingmenn stjórnarflokkanna þriggja síðustu daga má draga þá ályktun að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hafi örlög ríkisstjórnarinnar í hendi sér. Hún liggur enn undir feldi og metur stöðu sína eftir álit Umboðsmanns Alþingis, sem birt var fyrir rúmri viku, og innan VG bíður fólk í ofvæni eftir útspili hennar.
Sjálfstæðisflokkur og amk. hluti Framsóknarflokksins hafa gert það ljóst að VG verði að gera nægilega breytingar á ráðherraliði sínu áður en þing kemur saman að loknu jólaleyfi, annan mánudag, þannig að ekki komi til þess að Miðflokkurinn og Flokkur fólksins leggi fram vantrausttillögu á matvælaráðherrann.
Skilaboðum þessa efnis hefur rækilega verið komið á framfæri undanfarna daga og eins því að ekki muni allir þingmenn stjórnarliðsins verja ráðherrann vantrausti, komi til atkvæðagreiðslu á þingi um það.
Vinstri græn hafa á móti sagt að verji stjórnarþingmenn ráðherrann ekki vantrausti, jafngildi það stjórnarslitum.
Sagt er að Svandís vegi nú og meti stöðu sína, en kunni því illa að láta Sjálfstæðisflokkinn stilla sér upp við vegg í pólitík. Hún er talin vera næsti leiðtogi Vinstri grænna og horfir til þess að pólitísk inneign hennar geti laskast verulega með því að hún gefi eftir og færi sig í annað ráðuneyti.
Á sama tíma er hart lagt að Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að íhuga vandlega þann möguleika að bjóða sig fram til forseta og komast þannig með sóma út úr stjórnarsamstarfi sem er á lokametrunum.
Í næstu viku verða nefndafundir á Alþingi og flestir þingmenn og ráðherrar þá snúnir heim. Viðbúið er að símalínur glói þá sem aldrei fyrr, enda líf ríkisstjórnarinnar undir. Stjórnarandstaðan fylgist með úr fjarlægð og mun gera allt sem í hennar valdi stendur til að reka endahnútinn á sex ára samstarf ríkisstjórnarflokkanna þriggja.