Stjórnleysið smitar út frá sér

Auglýsing frá samtökunum No borders, sem vilja afnema landamæri og opna landið og hvöttu til aðgerða gegn lögreglu á dögunum.

Það er óvenju stuttur þráður í landanum um þessar mundir og veldur eflaust margt. Viðsjár eru á alþjóðavettvangi og friður virðist ekki eiga mjög upp á pallborðið hjá þeim sem ráða för. Mörg þúsund ára trúarbragðastríð eru heimfærð upp á íslenska umræðu og stóru orðin ekki spöruð. Helst mætti skilja, að bannsettur ódámurinn hann Bjarni Ben beri ábyrgð á því að ekki hafi tekist að stilla til friðar í Miðausturlöndum. Eða að það muni hafa áhrif á friðarumleitanir hvort Ísland fær enn eitt tækifærið til að falla út í undankeppni Eurovision.

Hamfarir verða í nær þriðju hverri viku, sjálfsagðir hlutir á borð við rafmagn og heitt vatn, eru ekkert sjálfsagðir lengur og okkar fremstu vísindamenn spá því að jörð geti skolfið og gosið í næsta nágrenni við mikla byggð næstu áratugi. Óvissan er mikil og hún er viðvarandi.

Við búum í lýðræðisríki, sem betur fer, og öllum er frjálst að segja skoðun sína og mótmæla hverju sem er. En það sem er ekki í boði og á ekki að vera í boði, er að vera með ógnandi tilburði, beita ofbeldi af einhverju tagi eða aðgerðum í þágu tiltekins málstaðar. Það á ekkert skylt við lýðræði.

Að ógna þingmönnum sem ganga inn og út úr óvarðasta þinghúsi Vesturlanda er ekki í lagi. Að henda hlutum í bíla þeirra og hrópa til þeirra ókvæðisorð er ekki í lagi. Það er ekki í lagi að trufla fundi þar sem ráðherra hefur orðið og hlaupa til hans og hella yfir hann glimmeri eða hvaða efni öðru. Og það er ekki í lagi að gera aðsúg að lögreglunni eða tálma með einhverjum hætti laganna verði í sínum störfum eða hvetja til þess með auglýsingum og viðburðum. Hver skyldi vera meiningin á borð við hvatninguna: „Crush state violence“?. Það er heldur ekki í lagi að kasta eggjum eða öðru gumsi í Alþingishúsið.

Það er að skapast einhvers konar þjóðfélagsástand, þar sem pirringur vex og markalínur eru færðar. Stjórnmálin eru þar ekki undanskilin og einstaklega óvinsæl ríkisstjórn liggur vel við höggi. Við þurfum að gæta okkur á þessu. Annars kann að fara illa. Við stærum okkur af sakleysi þessa samfélags í spjalli við erlenda vini og kunningja, en hversu saklaust er það í reynd?

Í lögum er skýrt kveðið á um allsherjarreglu. Með því er átt við að lögum og reglum sé haldið við í samfélaginu eftir því sem nauðsynlegt verður að teljast. Að menn geti gengið um götur óáreittir, viðskipti gengið sinn vanagang og eignir borgaranna eða þær sem eigum við saman, látnar í friði. Meirihluti Íslendinga ber virðingu fyrir stofnunum sínum og kjörnum fulltrúum og það er mikilvægt að ekkert umburðarlyndi sé fyrir öflum sem vilja hóta ráðamönnum eða hafa í frammi ógnandi tilburði í því skyni, að þagga niður í þeim eða vinna tilteknum málstað gagn.

Stjórnleysið í landinu er á ábyrgð stjórnvalda, en það er líka þeirra að bregðast við. Og það þarf að gerast, áður en það verður of seint.