Stóru fréttirnar eru að bandaríski herinn er að snúa aftur

Forseti Íslands tók á móti varaforseta Bandaríkjanna í Höfða í dag. / Skjáskot af útsendingu RÚV.

Stóru fréttirnar sem sjö tíma heimsókn varaforseta Bandaríkjanna hingað til lands segja okkur, er að Ísland er aftur orðið það strategískt og hernaðarlega mikilvæga land sem það var allt frá seinni heimsstyrjöldinni og framyfir lok kalda stríðsins.

Ég sótti kúrsa í sagnfræði kalda stríðsins, meðal annars hjá núverandi forseta lýðveldisins, og hann gerir sér eflaust manna best grein fyrir þessari gjörbreyttu stöðu. Áherslan á Norðurslóðir er nýja línan í alþjóðamálum og stóraukinn áhugi Kínverja á landvinningum á þessum slóðum, til dæmis hér á landi og í Grænlandi.

Ég var aðstoðarmaður utanríkisráðherra og sat í bíl með Halldóri heitnum Ásgrímssyni þegar hann ræddi í síma við bandarískan starfsbróðus sinn Colin Powell um þá fyrirætlan bandarískra stjórnvalda að kalla bandaríska herinn heim frá Miðnesheiði. Powell tókst að fá ákvörðuninni frestað um stund, en hann varaði Halldór við að haukarnir í Washington segðu að Ísland skipti engu máli lengur, aðaláherslan væri og yrði á Miðausturlönd.

Skömmu síðar hafði varnarmálaráðherrann Donald Rumsfeld betur og fékk George W. Bush Bandaríkjaforseta til að staðfesta ákvörðun um brotthvarf hersins. Þótt fáein ár séu liðin frá þessum atburðum í sögulegu samhengi, finnst manni engu að síður óratími frá því bandarísk herstöð var starfrækt hér á landi.

Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans.

En nú eru semsé breyttir tímar. Á skömmum tíma hafa utanríkisráðherra Bandaríkjanna og nú varaforsetinn sótt landið heim og þótt kurteisislegra umræðuefna sé getið í opinberri dagskrá, vita allir sem vilja vita, að erindið er alvarlegra.

Bandaríkjamenn eru búnir að fatta að þeir gerðu mistök með brotthvarfi hersins á sínum tíma og vilja snúa til baka. Það er kaldhæðnislegt að þetta sé að gerast á vakt Vinstri grænna í forsætisráðuneytinu, en er engu að síður staðreynd.

Búið er að taka ákvörðun um byggingu herbúða fyrir ríflega eitt þúsund hermenn á Keflavíkurflugvelli, þar sem þeir geti haft fasta búsetu.

Ríkisstjórn Katrínar Jokobsdóttur stendur frammi fyrir miklum áhuga erlendra stórvelda á Ísland sem eyju mitt í Atlantshafinu — enda blikur á lofti í alþjóðamálum, hvernig sem litið er á málin.

Vinstri grænir munu líklega ekki skipuleggja Keflavíkurgöngu meðan þeir eiga aðild að ríkisstjórn, en bandaríski herinn er að snúa aftur. Um það eru öll teikn og tíst erlendra blaðamanna sem fylgja Pence staðfesta það.

Það er stóra fréttin af hingaðkomu bandaríska varaforsetans í dag.