Svíar geta sjálfum sér um kennt

Svíar eru með böggum hildar yfir þeim fregnum að grannþjóðirnar Noregur og Danmörk hafi gert með sér samkomulag um frjálst flæði fólks milli landanna (og opnað um leið fyrir okkur Íslendingum) en hafi áfram lokað fyrir Svíum.

Á vef danska ríkisútvarpsins í gær er rætt við Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, og Katrin Sjernfeldt Jemmeh, borgarstjóra Malmö, sem báðar eru sýnilega mjög skúffaðar yfir þessum tíðindum. Segja þær takmarkið hafa verið samnorræna lausn, en niðurstaðan orðið önnur og segir sú síðarnefnda að hið sameiginlega atvinnusvæði við Eyrarstundið (Kaupmannahöfn og Malmö) sé í stórkostlegu uppnámi við þessar aðstæður.

Sænski utanríkisráðherrann segir ekki ofsagt að Svíar séu frændum sínum sárir. Undir það hafa fleiri sænskir stjórnmálamenn tekið í gær og í dag.

Allt þetta ágæta fólk horfir þó framhjá þeirri bláköldu staðreynd, að Svíar hafa farið allt aðra leið í baráttunni við kórónuveiruna Covid-19 en grannþjóðirnar og uppskorið miklu fleiri dauðsföll fyrir vikið, einkum meðal eldri borgara og þeirra sem viðkvæmastir voru fyrir.

Sænskir sóttvarnalæknar hafa gagnrýnt nálgun grannþjóðanna, líkt og þeir einu sem vitið hafa, og til hefur orðið hugtakið sænska leiðin um þá aðferðafræði sem beitt hefur verið í landinu.

Norrænt samstarf eða sameiginleg nálgun var víðs fjarri þegar Svíar ákváðu að fara sínar eigin leiðir, en þegar á að hefja tilslakanir skilja þeir ekkert í því að traust gagnvart þeim sé í lágmarki. Nú vilja þeir allt í einu samstarf og sameiginlegar lausnir.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á fundi Íslenskrar erfðagreiningar í vikunni að ekki væri mikil stemning fyrir því að hleypa fólki frá Svíþjóð eftirlitslaust inn í landið og lái honum hver sem vill.

Svíar geta sjálfum sér um kennt að þessi staða sé komin upp í samstarfi Norðurlandanna. Það mun taka þá langan tíma að endurvinna traust og sannfæra frændþjóðirnar um að allt sé í standi í sænsku heilbrigðiskerfi.

Svo einfalt er það.

Björn Ingi er ritstjóri Viljans (bjorningi@viljinn.is)