Það er rétt sem Víðir og Þórólfur sögðu á upplýsingafundi dagsins, að samstaða þjóðarinnar skiptir miklu máli nú, eigi að takast að ráða niðurlögum þriðju bylgju farsóttarinnar. Útlitið í þeim efnum er ekki nógu gott; bæði virðist lítið lát á útbreiðslu veirunnar í samfélaginu og auk þess virðist almenningur minna spenntur fyrir tilmælum sóttvarnayfirvalda en áður.
Það er þess vegna sem faraldurinn breiðist út á ógnarhraða hér á landi, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Nýgengið er í hæstu hæðum í öllum alþjóðlegum samanburði og sé sérstaklega litið til eyjasamfélaga (sem eðli máls samkvæmt eiga hægar um vik með að loka landamærum sínum í aðstæðum sem þessum) er ljóst að við erum alls ekki að standa okkur.
Vonandi virka þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í, bæði almennar samkomutakmarkanir og eins staðbundnar hér á höfuðborgarsvæðinu. Þar sem ég hef fjallað um faraldurinn allt frá upphafi og sótt fleiri upplýsingafundi en tölu verður á komið, berast mér gríðarlegur fjöldi ábendinga, símtala og skeyta frá almenningi um stöðu mála frá einum tíma til annars. Undanfarið hafa kennarar og annað starfsfólk skóla á öllum stigum menntakerfisins verið áberandi í þeim hópi og er greinilegt að þessi mikilvæga framlínustétt er ósátt og óróleg yfir stöðu mála og finnst eins og allar ráðstafanir til að tryggja líf og heilsu fólks snúi að öllum öðrum en þeim sjálfum.
Þannig eru skýr tilmæli frá þríeykinu nú um að þeir vinni heima sem það geta. Fólk er almennt beðið um að halda sig heima, líkt og í vetur og vor. En kennarar eiga þó áfram að mæta til vinnu eins og ekkert hafi í skorist, bæði í leik- og grunnskólum og það þótt daglega berist nú fregnir af smitum sem koma upp í skólum landsins, annað hvort hjá kennurum eða nemendum, nema hvort tveggja sé.
Í nýútkominni bók minni, Vörn gegn veiru, er fjallað ítarlega um skólana og smithættu af börnum. Þar er því lýst hvernig vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar rannsökuðu fyrsta faraldurinn og útbreiðslu hans hjá börnum. Kennarar höfðu í vor ákveðið að neita að mæta til vinnu af ótta við smit og þurftu yfirvöld fræðslumála að fá Þórólf Guðnason sóttvarnalækni og Kára Stefánsson forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar til þess að rökstyðja áhættumatið á bak við opnun skólanna.
Rannsóknum um þetta efni og atburðarásinni þessa vordaga er vandlega lýst í bókinni og hvet ég kennara og aðra forystumenn í skólakerfinu til að kynna sér það. Niðurstaðan var alveg skýr; að börn smita síður en fullorðnir. Miklu síður raunar.
En það er mikilvægt að undirstrika að þau geta þó verið smitberar eins og aðrir í samfélaginu og þegar farsótt geisar jafn hart og raun ber vitni nú, er óhjákvæmilegt að börn smitist og smiti aðra, eins og fréttir fjölmiðla undanfarna daga bera með sér.
Veiran er ósköp einfaldlega orðin svo útbreidd í samfélaginu á þessum tímapunkti og samgangur fólks (fullorðinna og barna) enn svo mikill að smithraðinn er ógnvænlegur. Það er einmitt þess vegna sem faraldurinn er á milli þess að vera í línulegum vexti og veldisvexti og þess vegna hefur aftur og aftur verið gripið til harðari aðgerða.
Þetta vita kennarar ósköp vel. Í þeim hópi er fólk á öllum aldri, sumir með undirliggjandi sjúkdóma eins og gengur. Þetta fólk er nú áhyggjufullt og hefur miklar áhyggjur af stöðunni. Vill börnunum, nemendum sínum, allt hið besta, en er orðið hrætt við að mæta til vinnu af ótta við smit.
Við þær aðstæður og af því að við erum að horfa á veiruslaginn sem langhlaup fremur en stuttan sprett, væri að líkindum skynsamlegast nú að loka skólum landsins (að minnsta kosti höfuðborgarsvæðisins) tímabundið og taka upp fjarkennslu næstu tvær vikurnar til að draga úr smithættu innan veggja skólanna og á skólalóðinni og draga þannig úr útbreiðslu í samfélaginu. Þannig væri einnig unnt með betri rökum að óska eftir því við kennara að þeir standi vaktina í framlínunni í langhlaupinu sem framundan er, því við vitum öll hversu mikilvægt er að börnin njóti menntunar og þeirrar rútínu sem skólastarfið býður upp á.
Kennarar eru framlínufólk. En þeir mæta ekki í hlífðargöllum í vinnuna og eru útsettari fyrir smitum en margir aðrir, þar sem nándin er mikil í skólastarfinu og innan skólastofunnar. Yngstu nemendurnir þurfa stundum huggunnar við eða hjálp og það þýðir ekkert að skipa sex, sjö eða átta ára börnum að halda sig í tveggja metra fjarlægð frá næstu manneskju, enda er það ekki gert. Að ekki sé tala um nemendur í leikskólum landsins.
Eftir samtöl við skólafólk undanfarna daga og vikur, met ég það svo að illa geti farið, ef ekki er tekið tillit til réttmætra athugasemda kennara í þessum efnum. Það gæti því verið skynsamlegt og raunar nauðsynlegt að gera hlé á hefðbundnu skólastarfi meðan það versta gengur yfir.
Ekki síst þegar hægt er að færa fyrir því gild rök, að slík ráðstöfun geti beinlínis orðið til þess að draga úr faraldrinum.
Björn Ingi er ritstjóri Viljans og höfundur bókarinnar Vörn gegn veiru.