Það liggur eitthvað í loftinu

„Fólk er lokað inni og á ekki annarra kosta völ en að bíða. Sum bíða eftir mat, sum bíða eftir vatni, sum eftir næsta sprengjuregni og sum, rúmlega 100 manns, eru að bíða eftir okkur. Dvalarleyfi hafa verið afgreidd af Útlendingastofnun. Fararleyfi hafa verið afgreidd úr félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Aðstoð yfir landamæri er í lögsögu utanríkisráðuneytisins. Það er flókið. Það hefur verið upplýsingaóreiða í kringum þessi mál, um hvað er flókið og hvað er hægt og hver á og hver má gera og fara og aðhafast. Forsætisráðherra hefur sagt skýrt að það eigi að sækja þetta fólk sem er að bíða eftir okkur. Félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur sagt að við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur. Meirihluti þingheims er sammála sem og þorri þjóðarinnar.“

Þetta sagði Brynhildur Björnsdóttir, sem situr á þingi fyrir Vinstri græn um þessar mundir sem þingmaður í forföllum Svandísar Svavarsdóttur. Hún varð þannig ein fárra fulltrúa Vinstri grænna sem hafa tjáð sig um pattstöðuna sem ríkir um málefni þess fólks sem hefur fengið dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar, en er enn fast á átakasvæðum á Gaza.

VG bendir á Bjarna Ben

Málið hefur verið umdeilt lengi innan ríkisstjórnarinnar. Vinstri græn eru hætt að fela það og segja ábyrgðina liggja hjá formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni utanríkisráðherra. Hann reyndi að útskýra í tveimur sjónvarpsviðtölum í gær, að málið væri flókið og erfitt, það gæti verið fordæmisgefandi og umsóknir Palestínufólks um dvalarleyfi hér væru fleiri en á hinum Norðurlöndunum samanlagt. Fréttaþulir á Stöð 2 og RÚV höfðu lítinn áhuga á slíkum málflutningi og gengu óvenjulega og eiginlega furðulega hart eftir svörum: Hvenær verður fólkið sótt?

Sjálfstæðismenn segja innviðina sprungna þegar kemur að hælisleitendum. Kostnaðurinn sé kominn úr öllu korti og staðan sé óásættanleg. Hvort tveggja er rétt, en hvort tveggja hefur gerst á vakt Sjálfstæðisflokksins. Á Alþingi í dag var Sjálfstæðisflokkurinn sagður vilja knýja á um breytingar á útlendingalögum gegn því að koma fólkinu til bjargar sem bíður nú á Gaza.

Verkefnin að verða okkur ofviða

Jón Gunnarsson, fv. dómsmálaráðherra, sagði enda í þingumræðunni í dag, að málið væri af þeirri stærðargráðu, að „ef Norðurlöndin ættu að taka heim sambærilegan fjölda sem er með þessa stöðu sem við ræðum um, þeir sem eru með vernd á Íslandi, að þetta ættu að vera á milli 3.000 og 4.000 manns. Það geta allir séð hvers lags gríðarlegt átak það hefði verið og stórt verkefni fyrir Norðurlöndin að takast á við. Verkefnið er þess vegna stórkostlegt en það er aftur á móti gert að mínu mati lítið úr því í allri umræðu hversu umfangsmikið það er fyrir okkur.“

„Við þurfum að einfalda reglur. Við erum með miklu einfaldari reglur um fjölskyldusameiningu heldur en aðrar þjóðir og hér er sótt um t.d. fyrir fólk sem er fjarverandi. Það þarf að staðreyna þetta fólk. Það eru margar leiðir sem þarf að skoða í þessu sambandi. Utanríkisráðherra hefur sagt að málið sé rætt í fullri alvöru í ráðherranefnd og undirbúið. Það er nauðsynlegt aftur á móti að hafa heildarsamhengið í reglum og fordæmi til hliðsjónar. Við verðum líka að vinna eftir opinberum diplómatískum leiðum og við erum ekki með sendiráð á þessu svæði þannig að það gerir málin miklu flóknari. En nafnalistar voru sendir út í desember þannig að vinnan er í gangi. Við verðum að nálgast þetta í málefnalegri umræðu og staðan er erfið. Það er verið að vinna af fullum heilindum við ríkisstjórnarborðið í þessu. En við verðum líka að átta okkur á því að verkefnin eru að verða okkur ofviða, sérstaklega ef við breytum ekki þeim reglum sem hér gilda til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndum okkar,“ bætti hann við.

Hver er skoðun almennings?

Já, þetta er erfitt og viðkvæmt mál og auðvitað er engum sama um fólk í neyð. En samt er ekki víst að það sé rétt, sem Brynhildur Björnsdóttir sagði, að þorri þjóðarinnar vilji láta sækja fólkið í sínum ömurlegu aðstæðum. Almenningur hefur áhyggjur af stöðunni, áhyggjur af innviðunum og telur að svona geti þetta ekki gengið lengur. Kannski er meirihluti þjóðarinnar þeirrar skoðunar að Ísland geti ekki verið opnara hælisleitendum en önnur lönd og betra sé að hjálpa Palestínufólki í heimalandinu en flytja það til Íslands. Kannski birtist fljótlega skoðanakönnun sem sýnir að þjóðarsálin slái fremur í takt við málflutning Sigmundar Davíðs og Miðflokksins og nú Bjarna Benediktssonar og Sjálfstæðisflokksins, en þeirra sem mótmæla á Austurvelli þessa dagana. Kannski er endalaus fréttaflutningur Ríkisútvarpsins af þessu máli ekki í samræmi við skoðanir almennings?

Hver veit?

Geta bæði Katrín og Bjarni haldið andlitinu?

Að minnsta kosti er ljóst, að pólitísk staða málsins er flókin og ekki auðvelt að sjá fyrir sér niðurstöðu þar sem þau geta bæði haldið andlitinu, forsætisráðherrann og utanríkisráðherrann.

Tilfinningar blandast hér inn og ólík hugmyndafræði ólíkra flokka. Það verður erfitt fyrir Vinstri græn að samþykkja breytingar á útlendingalögum undir afarkostum Sjálfstæðisflokksins. Að sama skapi verður allt vitlaust innan Sjálfstæðisflokksins, ef forystan gefur eftir í enn einu málinu og það fyrir allra augum. Þar er fólk þeirrar skoðunar, að verði rúmlega hundrað manns flutt hingað til lands nú, verði krafan í næstu viku að tvö hundruð verði bjargað og svo koll af kolli. Að ekki sé minnst á að hver og einn eigi svo rétt á sinni eigin fjölskyldusameiningu í framhaldinu.

„Gerist það, munu Sjálfstæðisflokkurinn fara fljótlega niður fyrir fimmtán prósentin í könnunum og Miðflokkurinn hitta hann einhvers staðar fyrir á sinni uppleið,“ sagði áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum í samtali við Viljann.

Sá telur næstu daga í íslenskum stjórnmálum geta orðið sögulega í meira lagi. Undir það skal tekið. Það liggur eitthvað í loftinu, eins og allir séu að bíða eftir einhverjum stórtíðindum.