Þetta er ekki flókið

Það er orðið ljóst að ný bylgja kórónuveirunnar sem veldur COVID-19 er að skella yfir landið. Hvort hún verður langvarandi á eftir að koma í ljós, en við vonum auðvitað öll að svo verði ekki.

Eftir ótíðindi nokkra daga í röð, fann ég að mörgum var létt eftir upplýsingafund þríeykisins í gær. Á Þórólfi sóttvarnalækni og Víði yfirlögregluþjóni var að skilja, að góðar líkur væru á að unnt væri að komast fyrir þær hópsýkingar sem eru í gangi.

Tölurnar sem birtust í morgun gefa ekki tilefni til jafn mikillar bjartsýni. 13 greindust í gær, enn eru allt of margir að greinast utan sóttkvíar og auk þess hefur hvorki tekist að finna þann sem bar fyrstur smitið inn í landið í öðru tilfellinu né ýmsa hlekki í smitkeðjunni almennt. Það þýðir auðvitað að úti í samfélaginu er enn fólk sem ber veiruna og smitar aðra án þess að hafa hugmynd um það. Margt úr raðgreiningum undanfarið bendir til að sumt af þessu fólki hafi óvenju hátt hlutfall af veirunni í sér og einhverjir geti því verið ofurdreifarar, sem kallað er.

Ég veit að bakslagið undanfarna daga hefur komið illa við marga. Fólk er leitt og pirrað, þreytt og jafnvel reitt, þar sem athafnafrelsi er skert og tekjumöguleikum rústað án fyrirvara.

En þetta er ekki flókið: Ef þróunin heldur áfram eins og verið hefur, er Ísland komið á samræmda evrópska lista yfir há-áhættusvæði og önnur lönd munu á næstu dögum setja á 14 daga sóttkví hjá þeim sem koma héðan. Fréttin úti í heimi verður að önnur bylgja sé hafin á Íslandi.

Ef ekki tekst að snúa þróun undanfarinna daga við, er ljóst að skólastarf mun ekki hefjast með hefðbundum hætti eftir 2-3 vikur. Listviðburðir, tónleikar og önnur starfsemi mun ekki fara í gang á nýjan leik. Viðkvæmir hópar þurfa að halda sig heima og þjóðfélagið verður allt hálfpartinn lamað.

Þetta er nefnilega í okkar höndum. Þvoum okkur þess vegna vel, sprittum og gætum að fjarlægðarmörkum. Virðum sóttkví og bið eftir seinni skimun. Ég hef heyrt allt of mörg dæmi undanfarið um fólk sem gerir það ekki og setur sjálft sig og fjölda annarra í óþarfa hættu.

Björn Ingi er ritstjóri Viljans.