Það var þungt yfir Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í morgun. Það fór væntanlega hvorki framhjá áhorfendum heima í stofu eða fyrir framan tölvuskjáinn né okkur blaðamönnunum sem fylgdumst með. Þórólfur eyddi enda páskunum í að rýna í reglugerðir og undirbúa málsvörn fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna farsóttarhúsanna, í stað þess að hlaða batteríin og koma ferskur til leiks í baráttuna eftir bænadagana. Við vitum hvernig það fór.
Á fundinum sagði Þórólfur að niðurstaða Héraðsdóms væri óheppileg út frá sóttvarnasjónarmiðum og geti leitt til alvarlegrar heilsufarsógnar. Sóttvarnir geti með þessari niðurstöðu, verði hún staðfest fyrir Landsrétti, sett sóttvarnir hér á landi í uppnám. Standi dómurinn aukist hætta á smitum hér innanlands með afleiðingum sem öllum eru kunnar og það muni gera honum erfiðara en ella að leggja til tilslakanir á núverandi samkomutakmörkunum.
Þetta er auðvitað rétt hjá sóttvarnalækni. Jafnljóst er að heilbrigðisráðuneytið brást í að tryggja sóttvarnalækni nauðsynlegar lagaheimildir og pottþétta reglugerð til að undirbyggja tillögur hans. Það verða að vera pottþéttar lagaheimildir fyrir slíkum íþyngjandi ráðstöfunum. Nú þegar faraldurinn hefur staðið yfir í rúmt ár, er þyngra en tárum taki að sóttvarnalögin haldi ekki.
Við vitum að fjölmargir virða hvorki einangrun né sóttkví. Um það eru ótal dæmi. Fólkið sem útskrifaði sig sjálft af farsóttahúsinu og lofaði að halda sóttkví heima, reyndi sumt að láta sækja sig þangað. Slíkt er vitaskuld þvert á allar reglur og sýnir í hnotskurn að þessi leið heldur jafnvel og hvernig hver og einn framfylgir henni. Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Og það er auðvitað óþolandi fyrir allt það fólk sem ætlaði sér ekkert annað en virða sóttkví heima hjá sér og fara varlega.
Ég sé á samskiptamiðlum, að einn dáðasti leikari þjóðarinnar, Ólafur Darri Ólafsson er nýkominn til Ástralíu. Hann birti mynd af hótelherberginu sínu eftir viku sóttkví og sagði nú aðra sjö daga eftir. Fjórtán dagar, takk fyrir. Er það virkilega svo að okkar stutta fimm daga sóttkví á glæsilegu hóteli sé eins og dvöl í gúlaginu? Trúir því einhver?
Það þarf ekki mikið að lesa milli línanna í nýjustu færslu forseta Íslands á fésbókinni til að ráða hvað honum finnst um ráðstafanirnar sem deilt er um nú:
„Farfuglarnir vita ekkert um veiru og sóttvarnir, ferðast óhindrað milli landa. Síðsumars flýgur lóan aftur suður á bóginn en margæsin heldur til norðurslóða í Kanada.Við mannfólkið njótum ekki slíks frelsis, því ráða heildarvarnir okkar í hættulegum heimsfaraldri. Eins og gefur að skilja verður mér kannski helst hugsað til margæsarinnar og ferðar hennar til Kanada, þar eigum við fjölskyldan vini og vandamenn sem við höfum ekki notið samvista við í langan tíma. Ferðalög vestur eru erfiðleikum bundin, vægast sagt. Í Kanada er krafist tveggja vikna sóttkvíar. Fyrstu þremur sólarhringunum eftir komu þurfa öll að verja á hóteli á vegum stjórnvalda, á eigin reikning. Gildir einu hvort fólk hefur verið bólusett fyrir Covid-19, fengið veiruna eða reynst neikvætt samkvæmt prófi. Þjóðerni breytir engu og ekki heldur hvort fólk getur dvalist í sóttkví á eigin heimili. Fyrir þessu mun vera traustur lagagrundvöllur.“
Tillagan um farsóttarhúsin er engu að síður í uppnámi og sú leið virkar ekki að óbreyttu til að stöðva lekann á landamærunum. Til að bæta gráu ofan á svart tók á gildi á miðnætti reglugerð dómsmálaráðherra um að íbúum utan Schengen-svæðisins með gild bólusetningarskírteini sé frjálst að koma hingað, þótt erindið sé ekki brýnt. Og sleppa sóttkví eftir skimun.
Ísland er þannig eitt örfárra landa í heiminum sem leyfir þeim sextíu eða sjötíu milljónum Bandaríkjamanna sem hafa verið bólusettir að koma til landsins. Ætli einhverjir þeirra vilji ekki nýta sér það? Erum við stakk búin að taka á móti stórum hópum ferðafólks nú? Ekki munu Bretarnir koma, þótt þeir hafi verið bólusettir upp að helmingi þjóðarinnar. Heilbrigðisráðherrann breski hótar hverjum þeim landa sínum sem ferðast utan án nauðsynlegra erinda hárri sekt, allt að 900 þúsund krónum. Hann segir þetta nauðsynlegt til að verjast nýjum afbrigðum veirunnar.
Sóttvarnalæknir nýtti tækifærið á upplýsingafundi dagsins til að brýna stjórnvöld og þingmenn að tryggja sem fyrst nauðsynlegan lagagrundvöll sóttvarna svo heilsu landsmanna sé ekki ógnað meðan svo fáir hér innanlands hafa verið bólusettir. Einhver myndi segja að sú brýning hafi verið tímabær og kurteisleg miðað við tilefnið.
Að fundinum loknum sendi ég Þórólfi tölvupóst og spurði hvort ekki skyti svolítið skökku við, að þegar sóttvarnalæknir hefur áhyggjur af leka nýsmita gegnum landamærin skuli reglur um komu bólusettra farþega hafa verið rýmkaðar á miðnætti og skyldudvöl í farsóttarhúsi í lausu lofti lagalega á sama tíma?
Svarið var ekki lengi að berast: „Blessaður. Stutta svarið er jú.“
Það er líklega engu við það að bæta.
Björn Ingi er ritstjóri Viljans (bjorningi@viljinn.is)