Þrjár tilraunir til þöggunar

Öll þekkjum við hina ótalmörgu kosti sem felast í tæknibyltingu síðustu ára og þeim lýðræðislegu tækifærum sem felast í samskiptamiðlum sem bjóða í reynd upp á að hver einstaklingur starfræki sinn eigin fjölmiðil og upplýsingar berist á örskotshraða nánast um allan heim ef því er að skipta. Fljótt flýgur fiskisagan, hefur aldrei átt eins vel við og nú.

En gallarnir eru líka áberandi og augljósir; fyrirbæri eins og falsfréttir (fake-news) og annars konar staðreyndir (alternative facts) vaða uppi og setningin um að sannleikurinn sé ekki búinn að reima á sig skóna þegar lygin er búin að fara tvo hringi kringum jörðina, er enn í fullu gildi.

Ein afleiðingin til er svo pólitíski rétttrúnaðurinn og hneykslunargirnin. Þörfin fyrir að hneykslast og dæma og úthrópa án dóms og laga tröllríður ekki aðeins samfélagsmiðlum, heldur hefðbundnum fjölmiðlum einnig og teygir sig skuggalega langt inn í helgar stofnanir á borð við akademíuna — hin helgu vé frjálsrar hugsunar og gagnrýnnar umræðu.

Um leið hefur óþolið gagnvart andstæðum sjónarmiðum vaxið jafnt og þétt. Algrími samskiptamiðlanna dregur að sér skoðanabræður okkar og systur og við hrökkvum í kút þegar við sjáum eða heyrum eitthvað sem okkur mislíkar. Fyrstu viðbrögðin virðast vera orðin þau að þagga niður í viðkomandi; hafa af honum æruna eða vinnuna — nema hvort tveggja sé.

Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans.

Hvert erum við eiginlega komin? spurði Brynjar Níelsson alþingismaður í umtöluðum pistli hér í Viljanum á dögunum, þar sem hann benti á að laganemar við sjálfan Harvard háskóla vildu deildarforsetann burt af því hann hefði tekið að sér málsvörn fyrir óvinsælan mann.

Það er von að spurt sé.

Flestir hugsa sig vel og rækilega um, áður en þeir deila skoðunum sínum á samfélagsmiðlum. Þær gætu jú stuðað einhverja rétthugsandi einstaklinga. Fyrir vikið verður umræðan ekki raunveruleg; það vantar fleiri rök með og á móti. Það þarf að vera hægt að takast á um hugmyndir og stefnur, en ekki deila endalaust um persónur.

Prófessor varð á að skrifa grein

Bandarískir háskólar hafa verið áberandi skotspónn þöggunartilburða nútímans. Svo mjög að margir innan akademíunnar hafa nú dregið línu í sandinn og sagt: Hingað og ekki lengra.

Þau eru til dæmis viðbrögðin við máli Samuels Abrams, íhaldsams prófessors við Sarah Lawrence College nærri New York, en hópur nemenda hefur farið fram á að honum verði vikið úr starfi.

Abrams, sem er hámenntaður með gráður frá Stanford og Harvard, og skilgreinir sig sem hófsaman Repúblíkana sem er fremur andsnúinn Trump forseta. En honum varð það á um daginn að skrifa grein í stórblaðið The New York Times og lýsa skoðunum sínum og þá varð allt vitlaust.

Hvert erum við eiginlega komin? Er það ekki einmitt hlutverk fólks innan fræðasamfélagsins að taka þátt í opinberri umræðu og viðra ólík sjónarmið?

Hinir hættulegu Passíusálmar

Annað dæmið er frá Íslandi. Og snýr að vaxandi óþoli fyrir trúarlegri tjáningu og menningararfi. Svo er að sjá, að ekki nægi öllum að það gildi trúfrelsi, heldur virðist markmiðið að koma í veg fyrir að aðrir geti iðkað sína trú og ekkert megi sjást eða heyrast sem er af trúarlegum toga.

Útgefandinn Kristján B. Jónsson segir á Facebook vegg sínum:

„Undanfarnar vikur hefur fyrirtæki á mínum vegum verið með auglýsingu á Facebook á hinu kunna verki Hallgríms Péturssonar, Passíusálmum, í frábærri útgáfu Marðar Árnasonar. Fyrir tveimur dögum slökkti Facebook á auglýsingunni með þeim rökum að myndirnar sem tengdust henni, þ.e. myndir af bókinni og innan úr henni, auk gamallar myndar sem upphaflega er eftir Samúel Eggertsson og sýnir Hallgrím, séu „særandi, meiðandi, óviðurkvæmilegar og ögrandi“.

Við nánari eftirgrennslan hefur komið í ljós að einhver hefur tilkynnt Facebook um að myndirnar særi hann eða hana þannig að hún geti ekki hugsað sér að sjá þær á Facebook, „vegna þeirra neikvæðu og erfiðu tilfinninga sem myndirnar veki“.

Ég verð að segja að þessi ritskoðunarkúltúr okkar samtíma er kominn út yfir allan þjófabálk.‟

Já, hvert erum við eiginlega komin?

Hugsanalöggan telur lækin

Þriðja dæmið birtist okkur í Stundinni í dag. Þar er í grein rætt um hegðun Helga Magnúsar Gunnarssonar, vararíkissaksóknara, á samskiptamiðlum.

Svo er að sjá að einhver ósýnileg hugsanalögga fylgist með því sem Helgi Magnús gerir á fésbókinni, það er fjallað um greinar og færslur sem hann „líkar við“ og eitt og annað gefið í skyn — en ekkert sagt berum orðum.

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.

„Sem vararíkissaksóknari er Helgi Magnús Gunnarsson einn æðsti embættismaður réttarvörslukerfisins á Íslandi. Óumdeilt er að opinberir starfsmenn njóta tjáningarfrelsis samkvæmt stjórnarskrá og hafa rétt til þátttöku í opinni og frjálsri umræðu um þjóðfélagsmál. Þetta á við um handhafa ákæruvalds jafnt sem aðra embættismenn,“ segir Stundin, en týnir samt til eitt og annað sem blaðinu finnst ekki að Helgi Magnús eigi að gera eða hugsa.

„Stundin sendi Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara fyrirspurn og spurði hvort hún teldi æskilegt að saksóknari hjá embættinu tjáði sig með þeim hætti sem Helgi gerir á samfélagsmiðlum. Þá var spurt hvort embættið hefði lagt mat á hvort málflutningur Helga samræmist siðareglum ákærenda, svo sem um framkomu utan starfs,“ bætir blaðið við.

Tilgangurinn er augljós: Helga Magnúsi skal vera ljóst, að það er fylgst með honum. Hvað hann segir á fésbók, hvaða færslur hann„lækar“, hvort hann sendi einhverja broskalla frá sér og svo framvegis.

Já, hvert erum við eiginlega komin?