Til umhugsunar

Kórónaveirufaraldurinn hefur leikið heimsbyggðina grátt undanfarna mánuði. Hið hefðbundna, daglega líf flestra jarðarbúa fór á hliðina í einu vetfangi og takmarkanir á sjálfsögðum borgaralegum réttindum urðu daglegt brauð. Heilbrigðiskerfi margra landa þoldi ekki álagið og allt of margir liggja í valnum.

Auðvitað hafa heilbrigðisyfirvöld ríkja heims gert fullt af mistökum. Skárra væri það þegar heimsfaraldur skellur skyndilega á og smittíðnin er jafn mikil og raun ber vitni. Ég er að minnsta kosti þakklátur fyrir að búa í landi þar sem áhersla var lögð á að láta líf og heilsu fólks hafa forgang, enda þótt það kostaði tímabundnar efnahagslegar fórnir.

Faraldurinn geisar nú um heiminn sem aldrei fyrr og þessi bylgja virðist jafnvel skæðari en þær fyrri. Hér á landi er fórnarkostnaðurinn í lífum talið orðinn meiri en í upphafi árs, ekki síst vegna hinnar hrikalegu hópsýkingar á Landakoti sem dreifðist svo yfir á aðrar sjúkrastofnanir. Þar urðu þeir fyrir þungu höggi, sem síst máttu við því.

Það hversu veiran er hættuleg viðkvæmum hópum ætti að vera okkur öllum mikið umhugsunarefni, nú þegar læknavísindin hafa á undraverðan hátt náð að þróa bóluefni sem virðist virka..

Kjarninn í þeirri hugsun ætti að vera sá, að nú þegar ljósið sést við enda ganganna og vikur frekar en mánuðir gætu verið í bóluefni gegn veirunni skæðu, hlýtur að vera sameiginlegt verkefni okkar allra að fara varlega þangað til svo fórnarkostnaðurinn verði ekki enn meiri en orðið er.

Sóttvarnir og aðhald hefur þannig að líkindum aldrei verið mikilvægara en einmitt nú þegar bóluefni er handan við hornið. Einfaldlega vegna þess að allir sem mögulega veikjast illa eða deyja á næstu vikum vegna of mikilla tilslakana, hefðu að öllum líkindum ekki gert það ef þeir fengju tækifæri til að verjast veirunni með nýju bóluefni.

Þetta gjörbreytir stöðunni og gerir ábyrgð okkar enn meiri.

Vöndum okkur aðeins lengur. Hvert líf sem gæti bjargast við það gerir það þess virði.

Björn Ingi er ritstjóri Viljans og höfundur bókarinnar Vörn gegn veiru. bjorningi@viljinn.is