Fræðslufundur Íslenskrar erfðagreiningar um stöðu og horfur varðandi Covid-19 á Íslandi var einkar vel heppnaður. Ég hafði mikla ánægju og gagn af því að hlýða á erindi okkar færustu sérfræðinga og gat auðvitað ekki annað en laumað að einni spurningu í lokin. Annað hefði verið fullkomið stílbrot.
Mig langar að setja fram tíu atriði sem ég myndi telja að hafi verið stærstu tíðindin á þessum fundi, en horfa má á hann í heild sinni í upptöku hér að neðan.
- Kári Stefánsson og Þórólfur sóttvarnalæknir upplýsti um fyrstu niðurstöður í mótefnamælingum Íslenskrar erfðagreiningar og sóttvarnalæknis sem staðið hafa yfir undanfarnar vikur. Lokaniðurstöður ættu að liggja fyrir innan 2-3 vikna, en fyrstu niðurstöður eru sláandi. Benda til þess að um 0,9% þjóðarinnar hafi myndað með sér mótefni fyrir veirunni.
- Það er miklu minna en hingað til hefur verið talið; Þórólfur var sjálfur á dögunum búinn að giska á að 5% Íslendinga hefði í reynd smitast –– margir án þess að hafa hugmynd um það.
- Þetta þýðir vitaskuld að langstærsti hluti þjóðarinnar er enn berskjaldaður fyrir veirunni. Það er líka umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga, að það reyndi verulega á þanþol heilbrigðiskerfisins í fyrstu bylgjunni þótt ekki hafi fleiri veikst en raun ber vitni og því er gríðarlega mikilvægt að vera vakandi fyrir næstu bylgju eða bylgjum, því veiran er ekkert að fara.
- Þórólfur sóttvarnalæknir gaf okkur innsýn í þær tillögur sem hann er með í smíðum fyrir heilbrigðisráðherra um opnun landsins. Sagði hann ótækt að opna landamærin alveg og hleypa hverjum sem er inn, það myndi stórauka líkur á alvöru faraldri hér á landi.
- Á hinn bóginn sé öllum ljóst að landið geti ekki verið lokað mikið lengur; það muni aðeins fresta vandanum um einhverja mánuði og skapa fleiri vandamál en það leysi.
- Vænlegast sé að stýra opnuninni þannig að hægt yrði að koma hjólum atvinnulífsins í gang á sama tíma og veirunni væri haldið í burtu. Það sé hægt að framkvæma með réttum aðgerðum. Landamærastöðvar með aðstöðu fyrir sýnatöku séu nauðsynlegar og þá verði að koma upp aðstöðu fyrir smitaða, þar sem alþjóðalög banni beinlínis að þeir séu sendir aftur úr landi.
- „Við þyrftum að bjóða upp á einangrun og sóttkví fyrir þá sem hafa verið í tæri við sýktan einstakling,“ sagði Þórólfur.
- Göngudeild Landspítalans, sem er einstök í sinni röð í heiminum, reyndist afar notadrjúg til að sinna veiktum sjúklingum. Þeir fengu þar eftirfylgni og alúðlega þjónustu, sem skipti miklu máli.
- Ekkert eitt lyf skipti sköpum í meðhöndlun veikra sjúklinga hér, en sum lyf nýttust undravel í ákveðnum tilfellum og munu gera, ef veiran blossar hér upp að nýju.
- Þórólfur, Kári og Alma landlæknir eru þess fullviss, að við Íslendingar munum með réttum viðbúnaði og aðgerðum ráða við næstu bylgjur án þess að þær kollvarpi öllu í heilbrigðiskerfinu og samfélaginu öllu.
Björn Ingi er ritstjóri Viljans.