Treystum Þórólfi

Ég hef áður lýst því að tvær andstæðar fylkingar takist á í sóttvarnarumræðunni hér á landi og að báðar hafi heilmikið til síns máls. Sjónarmið þeirra eru þó næstum ósamrýmanleg. Annar hópurinn vill opna landið alveg og freista þess að fjölga ferðamönnum og reyna að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað; hinn hópurinn vill loka landinu alveg að nýsjálenskri fyrirmynd og leyfa þeirri þjóð sem landið byggir að njóta lífsins í veirufríu umhverfi.

Báðir hóparnir fylgjast grannt með gangi heimsmálanna og þróun veirunnar víða um heim, sem er allt annað en jákvæð. Í hvert skipti sem íslensk sóttvarnayfirvöld tjá sig eða tilkynna um nýjar aðgerðir fer fólk úr sitthvorum hópnum af stað og finnur að því sem ákveðið hefur verið.

Ég er sjálfur held ég nokkuð dæmigerður Íslendingur í þessum efnum, hvorki harður í aðra áttina né hina. Ég skil algjörlega að landið þurfi á gjaldeyristekjum að halda og fólk og fyrirtæki þurfi viðnám eftir hrunið í vetur og vor, en um leið vil ég alls ekki fara óvarlega og fórna þeim frábæra árangri sem náðst hefur hér. Bara alls ekki.

Mitt þarna á milli er Þórólfur okkar Guðnason sóttvarnalæknir dag hvern, viku eftir viku og nú mánuð eftir mánuð. Hans lögskipaða hlutverk er að gæta sóttvarna og gæta þess að kórónuveiran (eða aðrar farsóttir) æði ekki um samfélagið. Lögum samkvæmt hefur hann gríðarleg völd, miklu meiri en nokkur gerði sér grein fyrir áður en faraldurinn hófst, og undanfarið hefur hann þess vegna verið lang áhrifamesti maður hér á landi.

Þess sjást nákvæmlega engin merki í fasi hans eða framkomu. Ég hef setið tæplega hundrað fundi með honum undanfarna mánuði, tekið ótal viðtöl við hann og spjall sömuleiðis. Þetta er dagfarsprúður og geðþekkur maður sem er að vinna vinnuna sína, tekur öllum vel og svarar spurningum með jafnaðargeði.

Dr. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Lögreglan

En aðalatriðið er þó árangurinn undir stjórn Þórólfs sem sóttvarnalæknis. Hann er einfaldlega á heimsmælikvarða, hvernig sem á það er litið. Landið er að mestu laust við veiruna; samfélagslegt smit er hverfandi og nýsmit sem greinast eru gripin hratt og örugglega af smitarakningarteymi og heilbrigðisþjónustunni. Fyrir vikið hefur okkur tekist að opna landið að nýju í hægum og varfærnum skrefum, en opna það þó. Og okkur tókst sömuleiðis að halda skólakerfinu gangandi í vetur og vor sem leið; reyna ekki um of á þanþol heilbrigðiskerfisins og bjarga elsta fólkinu okkar og viðkvæmustu hópunum.

Fæst lönd í kringum okkur hafa sömu sögu að segja.

Þess vegna segi ég nú við landa mína: Treystum Þórólfi. Varfærin skref hans í tilslökunum á gildandi takmörkunum hafa ekki leitt af sér stórvægilegt bakslag eða erfið hópsmit. Einmitt þess vegna er þjóðlífið smám saman að komast á réttan kjöl og land ferðamennskunnar ofurlítið að rísa.

Auðvitað eru margir sem vildu ganga miklu lengra. En varfærin skref eru allra hluta vegna skynsamleg. Fylgist bara með fréttunum frá útlöndum. Þar gengur fólk um með andlitsgrímur, víða er aftur búið að grípa til útgöngubanns og hrikalegar fregnir berast dag fregn af hópsmitum og fjölda látinna.

Þegar kemur að veirunni um þessar mundir er eins og Ísland tilheyri annarri plánetu en flestar aðrar þjóðir. Það er ekki síst Þórólfi Guðnasyni og samstarfsfólki hans að þakka.

Verum þakklát fyrir það. Og njótum ástandsins meðan það varir; það er allt eins víst að komandi haust og vetur verði afskaplega erfiður hjá okkur og öðrum þjóðum heims. Margir telja líklegt að næsta bylgja skelli þá á af fullum þunga og þróunin verði mun verri en það sem við höfum upplifað hingað til.

Björn Ingi er ritstjóri Viljans og vinnur þessa dagana að ritun bókar um Ísland og Covid-19 sem kemur út á næstu vikum. (bjorningi@viljinn.is)