Vaxandi líkur á forsetaframboði Katrínar

Vaxandi líkur eru nú taldar á því að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra söðli um og bjóði sig fram í forsetakosningunum sem verða snemmasumars.

Í nánasta ráðgjafahópi forsætisráðherrans er staðan nú vegin og metin. Þrátt fyrir erfiðleika ríkisstjórnarinnar undanfarin misseri og hratt minnkandi vinsældir stjórnarflokkana, þar með talið Vinstri grænna, er enn talið að Katrín muni njóta mikils fylgis í forsetakosningum þar sem hún höfðar til miklu stærri hóps en kjósenda Vinstri grænna. Og það er óumdeilt, að Katrín Jakobsdóttir nýtur mikillar virðingar á þingi, þvert á flokka. Hún þykir einfaldlega mjög heilsteypt og góð manneskja.

Margir telja hana hafa sýnt mikla leiðtogahæfileika með því að halda enn saman ríkisstjórn og reka hana sem nokkurs konar starfsstjórn. Í hverju málinu á fætur öðru kemur forsætisráðherrann fram og reynir að lægja öldur eða bjarga vandræðamálum í horn, sem blasir við öllum að hún á lítinn þátt í.

Sjálf lýsti hún stöðunni á stjórnarheimilinu ágætlega í fyrradag á þingi, þar sem hún kvaðst ætla að spara sér að boða til kosninga alveg strax: „Það er mikið rætt um stöðuna og ég ætla ekkert að draga neina dul á það að þetta eru ekki sömu flokkar, við erum heldur ekki í fjölskyldu saman, þessir flokkar. Við öxlum ekki ábyrgð hvert á öðru eins og móðir axlar ábyrgð á börnum sínum. Þegar einstakir þingmenn og einstakir ráðherrar segja sínar skoðanir verða þeir líka að bera ábyrgð á því sjálfir. Ég ætla bara að leyfa mér að segja það, bæði sem móðir og forsætisráðherra.“

Svo sterk er staða forsætisráðherrans, að aðrir mögulegir frambjóðendur bíða „á kantinum“ og eru með þreifara úti til að spyrjast fyrir um möguleikana á framboði hennar. Í þeim hópi eru stórkanónur á borð við Jón Gnarr leikara og fv. borgarstjóra, Ólaf Jóhann Ólafsson, rithöfund og fv. forstjóra hjá Sony, og Höllu Tómasdóttur, frumkvöðul og fv. forsetaframbjóðanda.

Ekkert þeirra vill bjóða sig fram meðan líkur eru til þess að forsætisráðherrann taki slaginn, sem er til marks um stöðu hennar.

Til þess að forsætisráðherra axli sín skinn og fari í forsetaframboð þarf ýmislegt að gerast, eins og gefur að skilja. Til Katrínar sást í Vesturbænum í vikunni í löngum göngutúr með Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra sem er í veikindaleyfi. Ljóst er að þær þurfa á næstunni að ráða ráðum sínum, þar eð Svandís er hinn augljósi framtíðarformaður Vinstri grænna, þá Katrín snýr sér að öðrum verkefnum.

Framundan eru því áfram spennandi tímar í íslenskum stjórnmálum, eins og á fleiri sviðum.