Við þurfum á aðstoð Kára að halda Íslendingar

Þar sem neyðarstigi Almannavarna hefur nú verið lýst yfir í landinu vegna Kórónaveirunnar og margt bendir til þess að útbreiðsla hennar sé óvenju hröð og beinskeitt hér á landi, verða yfirvöld heilbrigðismála og stjórnkerfið allt að bregðast við í samræmi við það.

Eitt af því sem þarf að gera er að fjölga skimunum fyrir veirusmiti og það er ekki auðvelt miðað við tækjakost Landspítalans og veirudeildarinnar þar. Um 80-100 sýni eru nú rannsökuð þar daglega, en skima þyrfti miklu fleiri og nú eru komnar vísbendingar um að veiran hafi dreift sér miklu víðar um samfélagið en hingað til hefur verið talið, en veirudeildin er enn fyrst og fremst að skima þá sem finna fyrir einkennum og eru nýkomnir heim frá skilgreindum hættusvæðum erlendis.

Þess vegna eru nú þegar komin fram mörg dæmi um að veiku fólki hafi verið neitað um próf, enda þótt það telji möguleika á smiti vera til staðar.

Það vakti mikla athygli í gær, þegar landlæknir beinlínis viðraði áhyggjur af þessu og sagði dr. Kára Stefánsson, prófessor í læknisfræði og forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, hafa boðist til að koma upp greiningarstöð á vegum fyrirtækisins svo fjölga mætti veirusmitum og reyna þannig að kortleggja útbreiðsluna betur og mögulega stökkbreytingu.

Landlæknir sagði að þetta framtak yrði einstakt á heimsvísu og var greinilegt að þjóðinni var létt yfir þessum tíðindum. Því við erum mörg áhyggjufull yfir stöðu mála og óttumst að veiran sé orðin miklu útbreiddari hér en flestir gera sér grein fyrir.

Björn Ingi Hrafnsson ritstjóri Viljans.

Kári, sem er líklega fremsti vísindamaður okkar Íslendinga nú um stundir og einn fárra sem væri líklegur til að geta unnið til Nóbelsverðlauna í fræðigrein sinni, sagðist horfa til þess að fyrirtækið ætti mjög fullkomna rannsóknarstofu og hefði á að skipa sérhæfðu starfsfólki sem gæti lagt þjóðinni lið við erfiðar aðstæður. Hægt væri að útbúa nokkurs konar drive-through rannsóknarstöð, þar sem nefstroka væri tekin úr þeim sem ættu við óþægindi í öndunarvegi að stríða og á skammri stund gæti legið fyrir hvort viðkomandi væri smitaður af Kórónaveirunni eða ekki.

Þetta væri semsé aukinn stuðningur við hið mikilvæga starf Landlæknis, sóttvarnalæknis og veirudeildar Landspítalans, sem gæti þá áfram einbeitt sér að sínum rannsóknum. Og áhyggjufullt fólk og aðrir í áhættuhópum gætu fengið skorið úr því hvort sýking væri til staðar eður ei.

Stundum er eins og ógæfu okkar Íslendinga verði allt að vopni, því í kvöld bárust þær fréttir að ekkert yrði af áformunum þar sem Vísindasiðanefnd og Persónuvernd litu á þetta tiltæki sem vísindarannsókn sem sækja yrði um leyfi fyrir.

Greinilegt var á viðbrögðum Kára Stefánssonar, að honum var misboðið. Þar spilar inn í, að honum finnst „kerfið“ lengi hafa haft horn í síðu fyrirtækisins og það sé jafnan grunað um græsku. Að einhver fiskur sé undir steini, jafnvel þegar gott eitt er lagt til og alvara á ferðum.

Stefán Pálsson tæknisögusérfræðingur hafði velt því fyrir sér á fésbókinni hvort fyrirtækið væri á höttunum eftir lífsýnum fólks til þess að bæta í gagnagrunn sinn yfir erfðamengi Íslendinga.

Íslensk erfðagreining og Kári sjálfur hafa tekið allan vafa af um að ekkert slíkt hafi verið í pípunum. Mönnum hafi einfaldlega runnið blóðið til skyldunnar að hjálpa til þegar vá steðjar að. Kári segir sjálfir í færslu sinni að málinu sé lokið og ekkert verði af öllu saman, en ég ætla að biðja hann vinsamlegast um að endurskoða þá afstöðu sína, þar sem ljóst sé að „kerfið“ hafi einfaldlega farið hér offari.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra gerir vel í því í kvöld, að lýsa því yfir að stjórnvöld, sóttvarnalæknir og landlæknir telji ásamt Almannavörnum brýnt fyrir hagsmuni þjóðarinnar, að Kári og Íslensk erfðagreining geti komið okkur Íslendingum til aðstoðar í þessum efnum.

Ég hygg því, að ég tali fyrir munn margra Íslendinga, þegar ég bið Kára vinsamlegast um að endurskoða afstöðu sína og leggjast á árarnar með okkur.

Við Íslendingar þurfum á honum og vísindamönnum Íslenskrar erfðagreiningar að halda.

Við þurfum á öllu okkar besta fólki að halda. Núna.

Staðan er mjög alvarleg. Og við megum engan tíma missa.

Höfundur er ritstjóri Viljans. bjorningi@viljinn.is