10 mánaða skilorðsbundið fangelsi: Fyrsti dómurinn úr Panamaskjölunum

Úr frægum Kastljóssþætti um Panamaskjölin. Helgi Seljan fréttamaður nær óvænt tali af Júlíusi Vífli í Ráðhúsinu.

Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, var í morgun dæmdur í tíu mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir peningaþvætti. Dómurinn er skilorðsbundinn í tvö ár.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins greindi fyrst frá dómnum. Júlíus Vífill var ekki viðstaddur dómsuppkvaðninguna.

Júlíus var með ákæru Héraðssaksóknara í ágúst sakaður um að þvætta tugmilljóna ávinning af fyrndum skattsvikum. Júlíus viðurkenndi að hafa ekki greitt skatta af fjármunum sem hann átti á erlendum bankareikningi.

Rannsókn skattayfirvalda á málinu fór af stað eftir að Kastljós fjallaði um Panamaskjölin í apríl 2016.

Hann er eini Íslendingurinn úr Panamaskjölunum sem hefur sætt ákæru vegna þess sem þar kom fram.

Fréttablaðið segir á vef sínum, að sak­sóknari hafi farið fram á átta til tólf mánaða ó­skil­orðs­bundið fangelsi yfir Júlíusi en hann var sakaður um að hafa þvættað 49 til 57 milljónir króna í gegnum sjóð sem hann var rétt­hafi að á­samt eigin­konu sinni og börnum. Fjár­munirnir þar komu til vegna við­skipta bíla­um­boðsins Ingvars Helga­sonar á árunum 1982 til 1993. 

Hefur blaðið eftir saksóknara, að líklega muni embættið una þessum dómi.