Birgitta: Heiftin kom á óvart

Birgitta Jónsdóttir f.v. alþingismaður Pírata.

„Ég er nefnilega ágætur „performer“ og finnst það mjög gaman“, er á meðal þess sem Birgitta Jónsdóttir segir í löngu viðtali í Mannlífi í dag, en hún er þar að tala um ný verkefni sem hún hefur tekið sér fyrir hendur í upplýsingaaktívisma o.fl. og kveðst vera „andsetin“ af þörf fyrir að semja ný drápuljóð. Hún sé nú að vinna fyrir Internet Archives í samstarfi við stærstu réttindasamtök í heimi fyrir stafrænum mannréttindum.

Í viðtalinu fer hún m.a. yfir feril sinn í upplýsingatækni og stjórnmálum, og hvernig henni hafi ávallt fundist hún passa illa inn hérna á Íslandi. Hún kveðst vera að rísa upp úr kulnun sem hún hafi upplifað eftir að hún hætti í stjórnmálum haustið 2017, en að heiftin sem hún hafi orðið fyrir á fundi hjá Pírötum í júlí sl. og Viljinn fjallaði um og birti upptöku frá, hafi þó komið sér á óvart.

Áttu fína tíma hjá vinnustaðasálfræðingnum

„Ég verð að viðurkenna að mér fannst mjög margt af því sem þarna kom fram virka þannig að ég veit ekki hvað fólk er að tala um. Það kom mér rosalega á óvart að upplifa þessa heift frá fyrrum samstarfsfélaga mínum vegna þess að við áttum mjög fína tíma hjá vinnustaðasálfræðingnum á sínum tíma og ég vissi ekki að viðkomandi væri með svona rosalega mikla reiði gagnvart mér. Ég vildi óska þess að viðkomandi hefði bara hringt í mig og beðið mig að hitta sig og við hefðum talað saman um þetta. Það er það sem mér finnst erfitt, ég skil ekki alveg hvað það er sem ég gerði þessu fólki,“ var á meðal þess sem Birgitta svaraði þegar hún var spurð að því hvort henni finndist að hún hafi átt eitthvað af því sem sagt var, skilið.

Eftir uppþotið á fundinum margumtalaða hafi hún fengið mikinn stuðning frá samstarfsfólki og óviðkomandi aðilum og segist óendanlega þakklát fyrir það. T.a.m fór af stað undirskriftasöfnun á netinu henni til stuðnings eftir fundinn, en þar hafa nú 81 skrifað undir.