20. nóvember 2018: Enn er sprengt og sprengt til að byggja fleiri risahótel

    Svona er umhorfs á svæðinu fyrir aftan gömlu Kexverksmiðjuna Frón þar sem nú er Kex Hostel. Manni bregður við að sjá hversu djúpt verktakarnir eru komnir þarna ofan í jörðina.

    Íbúar við Hverfisgötu, Lindargötu og Skúlagötu (og á nærliggjandi svæðum) hafa búið við endalausar sprengingar undanfarnar vikur, enda er greinilega verið að sprengja fyrir risavöxnum kjallara sem á að verða undir ógnarháu hóteli Radisson SAS Red sem manni skilst að opni þarna innan skamms með 195 herbergi á einhverjum sautján hæðum með einn stærsta bar landsins innandyra. Það fyrsta sinnar tegundar á Norðurlöndum, en RED mun vera í hæsta gæðaflokki Radisson SAS hótelanna.

    Alveg eins og mest þörf sé á slíkri uppbyggingu í miðborginni nú.

    Maður finnur víða vaxandi pirring út í  borgaryfirvöld vegna þéttingarstefnunnar sem virðist allsráðandi í borgarskipulaginu. Auðvitað horfir margt sem gert er til mikilla framfara, en þetta er allt svo risavaxið og sú áleitna spurning vaknar hvort sé virkilega þörf á öllum þessum hótelum í viðbót.

    Verið er að reisa stórt hótel á horni Laugavegs og Snorrabrautar, miklar byggingar eru að rísa við Hverfisgötu á svonefndum Barónsreit og Hafnartorg og Miðbakka og í þeim eru dýrar lúxusíbúðir sem ekki virðist mikill markaður fyrir nú um stundir.

    Víða annars staðar er líka búið að heimila enn meiri þéttingu með tilheyrandi sprengingum og látum.

    Upp rísa svo gríðarmiklar steinsteypubyggingar, mjög misfallegar svo ekki sé fastar að orði kveðið.

    Aumingja Bjarnaborgin, þessi fræga timburbygging sem á sér svo magnaða (og sorglega) sögu, má sín lítils þarna fyrir ofan og bráðum mun þessi risastóri hótelturn gnæfa yfir allt. Þeir sem njóta útsýnisins verða þá eingöngu ferðamenn — gestir hótelsins, en ekki borgarbúar.