21. nóvember 2018: Gæti sá síðasti þá mögulega slökkt ljósin?

Skóggangur var ein þriggja tegunda refsinga sem beitt var á þjóðveldisöld samkvæmt lögum Grágásar og var þyngst þeirra. Þeir sem dæmdir voru sekir skógarmenn nutu ekki lengur réttarverndar, voru griðlausir og útskúfaðir úr samfélaginu og réttdræpir hvar sem til þeirra náðist.

Skóggangur var refsing sem beitt var í Noregi og þar lögðust menn út í skógum en hér í óbyggðum. Þetta datt mér allt í einu í hug þegar ég leiddi hugann að þeim nettröllum sem yfirtaka oft ummælakerfi fjölmiðlanna og öllum þeim sem taka meðvitað eða ómeðvitað þátt í netsmánun hér á landi.

Við þekkjum öll hina hnignandi íslensku umræðuhefð. Birgitta Haukdal er tekin af lífi í umræðunni fyrir að hafa talað um hjúkrunarkonur í nýrri barnabók sinni. Bent hefur verið á í dag að stærstu fjölmiðlar landsins, sem og Læknablaðið og Tímarit hjúkrunarfræðinga hafi líka talað um hjúkrunarkonur án þess að samfélagið hafi farið á hliðina.

Nú er Einar Bárðarson milli tannanna á fólki. Um daginn voru það einhverjir aðrir og á morgun bætast nýir menn í hópinn. Allir sem taka þátt í stjórnmálum eru fífl og lygarar, listamenn eru liðleskjur og þannig fram eftir götunum. 2-3 Íslendingar lenda að jafnaði í hakkavél samskiptamiðlanna í hverri einustu viku. 

Safnast þegar saman kemur.

Þetta var meðal þess sem ég rædd við þá Harmageddon-bræður á X-inu í morgun, en margir eru orðnir afar þreyttir á brjálaða fólkinu á samskiptamiðlum sem dæmir náungann hart, oftast án þess að vita mikið um staðreyndir málsins.

Hægt er að hlusta á viðtalið hér.

Gott dæmi um yfirgang nettröllanna sást í dag þegar Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, ritstjóri Kvennablaðsins, deildi hlekk á fésbókina þar sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var gagnrýnd fyrir að hafa forðað sér af fundi VG um verkalýðsmál til að þurfa ekki að svara erfiðum spurningum fundarmanna.

Í sakleysi mínu varð mér á að skrifa athugasemd við færsluna. Benti á að ég þekkti forsætisráðherra ekki að því að forða sér út úr aðstæðum, en hún væri óneitanlega afar upptekin manneskja og líklegast væri að hún hefði verið búin að lofa sér annars staðar. Almennt ættum við ekki að gefa okkur alltaf það versta um annað fólk.

Ekki leið á löngu þar til eitt nettröllið var mætt og sagði að enginn tæki mark á mönnum eins og mér sem alltaf hefði tekið varðstöðu með kerfinu. Með fylgdu svo einhverjar álíka glósur, allt mjög málefnalegt eða þannig og ætlað að fæla fólk frá því að reyna að ræða málið með málefnalegum hætti. 

Nettröllin þola nefnilega ekki rökræður. Þau vilja öskra, nota hástafi, kalla aðra illum nöfnum og rifja upp eitthvað úr fortíðinni sem á að sýna að viðkomandi sé ekki hæfur til að tjá sig um nokkurn skapaðan hlut.

En ég nenni ekki að láta einhver nettröll stjórna umræðunni á Íslandi. Og ég held að þið ættuð ekki að gera það heldur.

Við eigum miklu betra skilið.  

Þess vegna benti ég á að forsætisráðherra hefði einmitt ekki forðað sér af fundinum. Hún hefði verið bókuð í þáttinn Víglínuna á Stöð 2 til að ræða pólitík og þess vegna orðið að fara.

Það varð eitthvað lítið um umræðu við athugasemdina eftir að þessar upplýsingar komu fram. Enda þekkt, að sannleikurinn getur eyðilagt marga góða samsæriskenninguna.

Hin leiðin er auðvitað að dæma alla þá sem hafa orðið fyrir netsmánun til skóggangs. Við förum þá fljótlega öll úr landi og hin hvítþvegnu nettröll verða eftir, allt þar til hvert og eitt þeirra hefur sjálft fengið að finna fyrir eigin meðulum.

Spurningin er þá hvort sá síðasti til að yfirgefa landið, væri til með að vera svo vinsamlegur að slökkva ljósin?