27. nóvember 2018: Tekst að koma WOW í skjól eða er draumurinn úti?

Loft er lævi blandið í íslensku viðskiptalífi. Það eru allir með hugann bundinn við stöðu flugfélagsins WOW air og hvort tekst að samþykkja kaup Icelandair á félaginu á hluthafafundi næstkomandi föstudag.

Skúli Mogensen, forstjóri og aðaleigandi WOW, hefur farið með himinskautum í íslensku viðskiptalífi undanfarin ár, en hann hafði áður kynnst miklum mótvindi í sínum viðskiptum. Hann er kominn á sama stað aftur. WOW er í miklum mótbyr og þeim fer fjölgandi sem spyrja hvort skynsamlegt sé fyrir Icelandair að reyna að koma félaginu til bjargar. Sem betur fer eru þeir þó enn fleiri sem telja slíkt þjóðhagslega mikilvægt og geta ekki til þess hugsað að félagið fari í þrot á næstu dögum.

Sem betur fer, segi ég. Því ég er þeirrar skoðunar að það geti orðið stórskaðlegt fyrir íslenskt efnahagslíf og ferðaþjónustuna ef illa fer. Eins og Snorri Jakobsson, ráðgjafi hjá Greiningu Capacent, benti á í Viljanum í gær, eiga stærstu hluthafar Icelandair — íslensku lífeyrissjóðirnir — mikið undir því að þetta takist. Þeir hafa lánað beint og óbeint í fyrirtæki og til einstaklinga og mega illa við miklum skelli sem gæti orðið við hvarf WOW af markaðnum. 

Erfitt skuldabréfaútboð

Ekki þarf að tíunda hér allar þær hraðahindranir sem stjórnendur WOW hafa þurft að beygja framhjá að undanförnu. Skúli hafði gagnrýnt stjórnendur Icelandair fyrir úreltan flugvélakost og að eyða stórfé í gengisvarnir vegna olíuverðs. Svo rauk olíuverð upp og hann sat allt í einu upp með Svarta Pétur. Olíuhækkanir hafa reynst WOW stór biti að melta, enda þótt heimsmarkaðsverð á olíu sé nú aftur á niðurleið.

Svo er það skuldabréfaútboðið. Áður en ráðist var í það, mat Skúli WOW á tuga milljarða króna. Leið svo og beið og öllum varð ljóst að þetta var ekki að ganga að óskum. Niðurstaðan eftir ítrekaðar frestanir og neikvæðan fréttaflutning (sem átti sér þó eðlilegar skýringar; fjölmiðlar voru bara að vinna vinnuna sína) var svo allt önnur og minni en ráð hafði verið fyrir gert. Þeir sem keyptu skuldabréf áttu nú rétt á að breyta kröfum sínum í hlutafé og gert var ráð fyrir skráningu á næstu 18 mánuðum.

En þar með var félagið ekki komið fyrir vind, því miður. Erfitt umtal gerði það að verkum að fólk var hikandi í að kaupa miða með löngum fyrirvara. Lausaféð sem fékkst með útgáfunni var fljótt að hverfa til helstu lánadrottna sem voru stressaðir í innheimtu sinni. Fór svo að Skúli leitaði á náðir Icelandair fyrir um mánuði, eftir að hafa rétt náð að greiða laun og helstu kröfur um mánaðarmótin, og bauð þeim félagið til kaups. Á allt öðru og lægra verði en félagið hafði verið metið á. 

Markaðurinn dró auðvitað þá ályktun að um björgunaraðgerð væri að ræða. WOW væri að falli komið og þetta væri neyðarúrræði.

Áreiðanleikakönnun á að liggja fyrir

Síðan hefur verið unnið að áreiðanleikakönnun. Hluthafafundur verður í Icelandair á föstudag þar sem staðfesta á kaupin. Ekki liggur fyrir staðfesting frá Samkeppniseftirlitinu og forsvarsmenn Icelandair hafa sagt að líklega verði að fresta ákvörðuninni.

Við þessu brást Skúli við í bréfi til starfsfólks í gær með því að stappa í það stálinu og biðja það um að sækja áfram af krafti. Eðlilegt væri að hlutirnir tækju lengri tíma en gert hefði verið ráð fyrir, þetta væri stór og mikill samruni. Og hann klykkti út með því að upplýsa að fleiri aðilar en Icelandair væru áhugasamir á kantinum og tilbúnir að skoða kaup á WOW, ef samruninn gengi ekki eftir.

Þetta síðasta hleypti illu blóði í forsvarsmenn Icelandair, eins og lesa má um í forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag. Þeir höfðu aldrei heyrt á slíkt minnst og töldu strax að um mannalæti í forstjóra WOW væri að ræða, lítil innistæða væri þarna að baki. En sögðu jafnframt að þarna væri komið tilefni fyrir stjórnendur Samkeppniseftirlitsins til að stöðva samrunann, því hingað til hefðu helstu rökin fyrir honum verið þau að WOW ætti á hættu að sigla í þrot og þetta væri því neyðarráðstöfun. Hefðbundnar samkeppnisreglur ættu ekki við.

Viðskipti voru stöðvuð með bréf í Icelandair í gær í skamma hríð að kröfu Fjármálaeftirlitsins og er það í annað sinn á skömmum tíma að slíkt gerist. Þegar opnað var fyrir þau aftur, tóku bréfin að falla hratt og mikið, enda hafði tilkynningin um kaupin á WOW orðið til þess að stórhækka gengi bréfanna um síðustu mánaðarmót. Greinilegt var að fjárfestar voru farnir að óttast um samrunann.

Keypti sjálfur fyrir 770 milljónir

Skúli hefur nú sent þeim fjárfestum sem tóku þátt í skuldabréfaútgáfunni bréf og tilkynnt þeim að síðasti ársfjórðungur hafi verið verri en gert var ráð fyrir. Líklega er hann þá kominn með niðurstöður úr áreiðanleikakönnun upp í hendurnar. Hann upplýsti jafnframt að hann hefði sjálfur tekið þátt í útboðinu og sett 770 milljónir króna inn í félagið.

Í frétt Fréttablaðsins segir:

„Hann segist í bréfinu, sem Markaðurinn hefunn hefur undir höndum, hafa verið sannfærður um að fjármögnunin sem félagið tryggði sér í umræddu útboði – en hún nam um 60 milljónum evra – myndi duga til þess að félagið gæti skráð hlutabréf sín á markað á næstu átján mánuðum. Skuldabréfaeigendurnir geti treyst því að forsvarsmenn flugfélagsins séu að leiða allra mögulegra leiða til þess að tryggja áframhaldandi rekstur WOW air.“

Skúli segir jafnframt í bréfinu, að nokkrir aðilar hafi sýnt WOW air áhuga, þar á meðal Icelandair Group. Það er athyglisverð yfirlýsing í ljósi þess, að hann er búinn að selja félagið til Icelandair með hefðbundnum fyrirvörum.

Hann staðfestir og í bréfinu, að frá því að skuldabréfaútboðinu lauk í september hafi aðstæður því miður breyst til hins verra. Umtalið hafi að endingu haft verri áhrif á sölu og lausafjárstöðu flugfélagsins en gert hafði verið ráð fyrir. Þá hafi gjaldþrot Primera ekki hjálpað til, því kröfuhafar hafi hert skilyrði sín.

Hvað gerist á föstudag?

Þetta er staðan nú á þriðjudegi, þegar þrír dagar eru í hluthafafundinn. Margir efast um að WOW air hafi nægilegt lausafé til að kljúfa komandi mánaðarmót, en vonast til þess að Skúli sé búinn að semja við Arion-banka um aðstoð í þeim efnum, dragist samþykkt hluthafafundar Icelandair.

Fari svo að að hluthafafundurinn fresti afgreiðslu málsins, er ekki ólíklegt að örlög WOW ráðist á föstudag eða um helgina. 

Það er því ekki skrítið að margir séu með stóran hnút í maganum. Verðbólguskotið sem ætlar sér að læðast inn í verðtryggð lán heimilanna um mánaðarmótin verður ekki stærsta áhyggjuefnið, ef illa fer.

Við skulum öll vona að þetta fari vel. Vonandi gerist annað af tvennu, að Icelandair afgreiði málið í ljósi heildarhagsmuna og þeirra möguleika sem felist í hagræðingunni. Eða hitt að Skúli eigi óvænt spil upp í erminni.

Það yrði þá að vera ás. Ekkert minna.