4. desember 2018: Góður tími til að koma út erfiðum upplýsingum

Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis.

Fræg er sagan af Jo Moore, spunameistara breska samgönguráðherrans, sem varð að segja af sér, eftir að hún sendi frá sér minnisblað í kjölfar voðaatburðanna í Bandaríkjunum, hinn 11. september 2001, þar sem hún lét þess getið að nú væri mjög góður dagur til að koma út öllum erfiðum fréttum og upplýsingum.

Hugmynd spunameistarans var auðvitað sú að hryðjuverkin yrðu það eina í fréttum og því væri rétta tækifærið til að moka skítnum út og koma því frá sem að öðrum kosti myndi vekja reiði og hneykslan. Hún hafði vitaskuld rétt fyrir sér, en þetta var algjörlega siðlaust og hún var látin fara.

Af einhverjum ástæðum dettur mér þetta í hug, þegar fréttaflutningur er skoðaður af Klaustursamsætinu alræmda hjá þingmönnum sex. Almenn hneykslunaralda skekur samfélagið og þingmennirnir liggja lágt, enda eiga þeir sér engar málsbætur. Fólki er réttilega misboðið, en iðrun nægir ekki öllum og margir vilja sjá pólitískt blóð renna, einkum pólitískir andstæðingar.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

En hvað er að gerast á sama tíma? Gæti verið að hinn gamalreyndi forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, sé ásamt forystumönnum ríkisstjórnarinnar að nýta tækifærið til að setja út erfiðar fréttir í ljósi þess að Klaustursumræðan kæfi það allt saman í fjölmiðlum?

Tvennt bendir eindregið til þess að svo sé.

Annars vegnar lagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fram frumvarp til laga í gær um kjör æðstu embættismanna þjóðarinnar. Kjararáð er lagt niður og þess í stað á einu sinni ári að uppfæra laun þingmanna, ráðherra, forseta, dómara og fleiri með gegnsæjum hætti.

Margt er gott við frumvarpið, en stóru tíðindin voru auðvitað þau að engin merki sáust um að fjármálaráðherra eða þingmenn ætli að afsala sér hinum ríflegu kauphækkunum sem þeir fengu í sinn hlut og vöktu reiði. Ekki orð. Aðeins er kveðið á um að ekki sé hægt að eiga við launin til hækkunar fyrr en um mitt næsta ár. Semsagt sex mánaða frysting. Það er gott innlegg inn í kjaraviðræðurnar eða þannig.

En vakti litla sem enga athygli. Klaustursmálið sá til þess.

Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Og í dag var birt á vef Alþingis frétt sem lét ekki mikið yfir sér, en felur þó í sér mjög miklar upplýsingar. Nánar tiltekið: Upplýsingar um laun, ferða-, starfs- og aksturskostnað þingmanna ellefu ár aftur í tímann.

Sjá hér.

Þarna kemur í ljós að karlgreyið hann Ásmundur Friðriksson, sem búið er að baða reglulega upp úr tjöru og fiðri vegna aksturspeninga sem hann fékk, er ekkert frábrugðinn þingmönnum úr öllum mögulegum flokkum undanfarin ár.

Margir landsbyggðarþingmenn hafa fengið svimandi háar upphæðir endurgreiddar. Skoðið t.d. Árna Johnsen, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, Birki Jón Jónsson, Sigmund Erni Rúnarsson og Höskuld Þórhallsson, svo dæmi séu tekin. Eða Einar K. Guðfinnsson, Kristinn H. Gunnarsson og Einar Már Sigurðarson.

Nú er spurningin? Verður þetta tilefni nýrrar hneykslunaröldu, eða verður Klaustursmálið til þess að þetta fái litla sem enga athygli?

Það verður forvitnilegt að sjá.

Sendu ritstjóra línu, ef þú ert með ábendingu eða upplýsingar sem þú vilt koma á framfæri.