618 hælisleitendur bíða nú afgreiðslu hér á landi, þar af 138 börn

Alls bíða nú 618 hælisleitendur eftir svörum frá Útlendingastofnun vegna umsókna þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi. Þar af eru 138 börn.

Fólkið er í þjónustu meðan á umsóknarferlinu stendur hjá Útlendingastofnun og búa í Reykjavík, Reykjanesbæ og Hafnarfirði.

Ríkisstjórnin mun verja 5,6 milljónum króna af ráðstöfunarfé sínu í desemberuppbót til umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi. Þetta var samþykkt á ríkisstjórnarfundi á föstudag. Umsækjendur um alþjóðlega vernd á Íslandi hafa undanfarin ár fengið viðbótargreiðslu í desember.

Á undanförnum árum hefur hælisumsóknum fjölgað mikið umfram getu Útlendingastofnunar til að afgreiða þær á sama tíma og stofnunin hefur þurft að mæta niðurskurði og fækka starfsfólki og þess vegna hefur afgreiðslutími í sumum málum orðið lengri en æskilegt er. Þá eru hælismál oft viðamikil og flókin og krefjast mikillar rannsóknarvinnu, að því er segir á vef stofnunarinnar.