Á hans vakt jókst kaupmáttur um 85% án þess að lýst væri yfir stéttastríði

Sigurður Bessason, fv. formaður Eflingar.

Eftir dr. Ásgeir Jónsson:

Árið 1988 lýsti forsætisráðherra landsins því yfir að við stæðum „nær þjóðargjaldþroti en nokkru sinni fyrr.“ Þannig endaði tveggja áratuga saga af verðbólgu og óstjórn í efnahagsmálum. Sambandið og sjávarútvegurinn voru gjaldþrota.

Árið 1990 komst Þjóðarsáttin á. Forsenda hennar var að verðbólguspár yrðu lagðar til grundvallar kaupmáttarmarkmiðum. Næst komu kreppuár samhliða því sem verðbólgan gekk niður. 

Árið 1994 voru lægstu taxtar Dagsbrúnar undir 40 þús.kr. á mánuði. Dagsbrún vildi hækka taxtana – en án þess að koma verðbólgu af stað. Það haust var okkur Sigurði Bessasyni falið að undirbúa kröfugerð fyrir félagið. Sem hagfræðingur félagsins sat ég sveittur við að búa til verðbólguspár – (sem ég var alls ekki öruggur með : -)

Dr. Ásgeir Jónsson hagfræðingur.

Niðurstaðan var samt sú að svigrúm væri fyrir miklar hækkanir enda merki um betri tíð í þjóðarbúskapnum. 

Í febrúar 1995 var síðan samið um myndarlegar taxtahækkanir í Karphúsinu. Og verðbólgan fór ekki af stað.

Ég ritaði grein um þessa samninga í Vísbendingu 19. maí 1995. Þá var ég orðinn ritstjóri Vísbendingar og Vinnuveitendasambandið sagði tímaritinu upp í kjölfarið – en það er önnur saga. Samningarnir 1995 voru upphafið að gríðarlegri raunhækkun lægstu taxta sem hefur staðið síðan – sem sjá má af meðfylgjandi grafi. 

Nú þekkist sú skoðun og þykir fín að verðstöðugleiki gagnist ekki þeim tekjulægstu. Það er þó rangt. Verðbólgan svíður mest þau sem minnst hafa. Eftir 30 ár hlýtur það að liggja fyrir að Þjóðarsáttin skilaði launafólki gríðarlegum lífskjaraábata. 

Okkur Sigurði Bessasyni varð vel til vina. Hann er hógvær og tillögugóður maður. En mikill húmoristi og harðdrægur í samningum. Sigurður varð formaður Eflingar árið 2000 – og á hans vakt heppnaðist að auka kaupmátt lægstu taxta félagsins um 85%. Þetta gerði hann án þess að lýsa yfir stéttastríði.

Höfundur er dósent og forseti Hagfræðideildar Háskóla Íslands.