Eftir Maríu Rún Vilhelmsdóttur:
Orðið áhrifavaldur hefur komið sterkt inn um síðustu mundir. Í raun erum við öll áhrifavaldar að mínu mati. Við höfum áhrif á það hvernig einhver í okkar nærumhverfi hagar sínum málum eða tekur upp siði sem við höfum tileinkað okkur, út frá áhrifum frá öðru fólki.
En orðið áhrifavaldur beinist í dag að hópi fólks sem hefur áhrif á mjög marga — því fleiri sem fylgjast með því hvað þú segir og gerir, borðar, klæðist — því stærri áhrifavaldur ert þú. Beinast þessi áhrif einkum að ungu kynslóðinni.
Þegar ég var unglingur kom alltaf upp eitthvað trend; oft byrjaði það út frá nýju tónlistrmyndbandi eða bara einfaldlega því þetta var það sem var nýtt í fatabúðunum. Við vorum lítið að spá í því hvað næsta manneskja fékk sér í morgunmat eða hvaða hárnæringu hún notaði í sturtu, hvað þá í hvernig undirfatnaði hún var í eða hvaða vítamín hún tók reglulega. Ef ég hefði spurt vinkonu mína hvaðan sængurfötin hennar væru eða hvað hún hefði fengið sér í kvöldmat kvöldið áður eða hvort við gætum farið heim saman eftir skóla og tekið upp myndbönd þar sem við myndum tala um hvar við keyptum nærbuxurnar okkar, þá hefði hún líklega forðast það að hitta mig í einhvern tíma.
Lífi okkar er stjórnað af snjalltækjum
En nú erum við komin hingað — lífi okkar er stjórnað af snjalltækjum. Það fyrsta sem gert er á morgnana er að fara á klósettið og kíkja svo á símann. Hvað ætli sé að gerast í dag, hvað eru allir hinir vinir mínir og fólk sem ég þekki ekkert að fá sér í morgunmat, hvað er þetta fólk að fara að gera í dag og í kvöld ? Og svona heldur þetta áfram.
Og það er mismunandi hver áhrifin eru eftir því í hvernig andlegu ástandi móttakandinn er.
Kvenkyns áhrifavaldur vaknar um morguninn, fer á klósettið, kíkir á símann, málar sig, krullar hárið, fer í nærföt, opnar orkudrykk og tekur mynd, fer úr fínu nærfötunum og aftur í eitthvað þægilegt, fer aftur upp í rúm að vinna myndina og setur hana síðan inn á netið.
Móttakandi númer eitt hugsar: Þessi manneskja er flott, og í svona flottum nærfötum, ég ætla að leggja mig fram til þess að fá líkama eins og hún og ætla að fara inn á þennan link sem hún lét fylgja með og panta mér svona nærföt um mánaðarmótin, og kaupa mér svona orkudrykk á eftir!
Móttakandi númer tvö hugsar: Þessi manneskja er flott, ég gæti seint náð þessu líkamlega formi , og verið svona vel máluð og hvað þá á morgnana, ég væri ekki flott í þessum nærfötum. Ég er enn óánægðari með sjálfa mig núna heldur en þegar ég vaknaði í morgun. Ég fer samt kannski og prófa þennan orkudrykk.
Það er ekki á ábyrgð áhrifavalda að láta öðru fólki líða vel, það er undir hverjum og einum komið hvað hann gerir við þær upplýsingar sem hann fær í gegn um snjalltækin sín, að meta hversu mikilvægar og góðar þessar upplýsingar eru.
Hin raunverulega ábyrgð
En förum yfir í annað, hina raunverulegu ábyrgð áhrifavalda:
Nú er raunin sú að áhrifavaldur er orðið að raunverulegu atvinnuheiti. Það að vera áhrifavaldur er alvöru starf, förum yfir það afhverju þetta starf þarf að vera meðhöndlað af mikilli ábyrgð.
Hver er áhrifavaldur? Áhrifavaldur er hver sú manneskja sem hefur mikla vitneskju (eða lítur út fyrir að hafa mikla vitneskju) um það sem hún þekkt fyrir að gera og neyta og notar þá vitneskju til þess að fá annað fólk til þess að trúa og fylgja sömu hugmyndum og hugsunum og áhrifavaldurinn er að reyna að koma á framfæri — á samfélagsmiðlum. Þetta hljómar nokkuð hættulega, en getur eins og allt annað verið bæði mjög gott og líka varasamt.
Þetta er vegna þess að það sem sett er á veraldarvefinn getur haft víðtæk áhrif. Þetta þýðir að áhrifavaldar hafa mátt til þess að hafa mikil áhrif á fólk eins og nafnið gefur til kynna. Þeir geta breytt hegðun og hugsunarhætti móttakandans. Til góðs, eða það sem hættulegt er — til hins verra.
Hversu trúverðugur áhrifavaldur ert þú?
Trúverðugleikinn kemur frá þekkingu þinni og reynslu. Veistu hvað þú ert að tala um? Þú ert ekki trúverðugur áhrifavaldur vegna fjölda fylgjenda, þú þarft að vinna vinnuna þína og skila góðu verki. Þú skalt vera viss um að það sem þú segir og auglýsir sé í góðu lagi svo trúverðugleikinn þinn haldist og áhrifin þín standi undir sér.
Ef ekki, gætir þú borið ábyrgð á því. Ekki nema að þú notir: ,,Ég vissi ekki betur á þeim tíma’’ afsökunina, hún er alltaf skotheld.
Elsku áhrifavaldur, ef þú ert að auglýsa klæðnað, skartgripi, undirfatnað, veitingastaði og hótel úti á landi eða hvernig þú þrífur sturtuna þína vitum við að það verður seint skaðlegt. En þú sem auglýsir matvæli, heilsukúra, fegrunaraðgerðir, húðflúrsstofur, áfangastaði í útlöndum og fleira, gerðu fylgjendum þínum þann greiða að læra heima. Ég veit að það er örugglega ótrúlega gaman að fá alla þessa hluti án endurgjalds en þú veist þá allavega upp á hár hvaða áhrif þú ert að setja út í umheiminn ef þú skoðar allt vel.
Áhrif á samfélagsmiðlum er ein sú áhrifamesta og skilvirkasta leið til þess að markaðssetja og auglýsa. Burtséð frá því hvort þú valdir þessa leið til þess að auglýsa sjálfan þig og það sem þú notar eða hvort þú hjálpir fyrirtækjum að koma vörum sínum til vinsælda, þá er þetta ábyrgð sem þarfnast nærgætni.
Móta fólk framtíðarinnar
Aðgát skal höfð í fjarveru sálar.
Þetta eru tímar þar sem ungviði heimsins sýgur í sig allt það sem áhrifavaldar hafa fram að færa. Þess vegna skiptir það svo miklu máli að hugsa áður en þú ‘’póstar‘’. Þið eruð bókstaflega að móta fólk framtíðarinnar.
Er ekki einhver áhrifavaldur þarna úti sem nennir að taka að sér að ala þetta fólk rétt upp? Segja þeim að setja símann ofan í skúffu og fara út að leika sér? Nei það gengur auðvitað ekki upp.
En að segja þeim að hætta að horfa á ókunnugt fólk tala við símann sinn og fara og banka upp hjá vini eða vinkonu? Nei það gengur ekki upp heldur.
En að segja þeim að lífsgildi þeirra eru ekki metin út frá like-um ? Nei það gengur ekki upp heldur.
Mig langar nú samt að senda hlýja strauma til þeirra áhrifavalda sem eru að ýta undir heilbrigða líkamsímynd og uppbyggjandi hugsanir. Og einnig til þeirra sem vinna heimavinnuna sína varðandi auglýsingar sínar. Það er greinilega ennþá von þarna úti.
Við finnum eitthvað úr þessu…