Ný forysta í íslenskri verkalýðshreyfingu ætlar að snúa vörn í sókn. Fólki um allan heim býður við og hafnar alfarið nýfrjálshyggjunni og þeirri mannkynssögulegu risalygi sem hún er grundvölluð á; að öllum sé best borgið með því að leyfa fámennum hópi að ákvarða hina efnahagslega stefnu,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, m.a. í ræðu sinni á fundi Vinstri grænna um verkalýðsmál sem haldinn var í gær.
Sólveig Anna birtir ræðuna á fésbók. Hún sagði að heimurinn standi fyrir alls konar vandamálum, „tilkomnum vegna þess að hagsmunir aðeins eins hóps hafa verið látnir ráða för í veröldinni. Við stöndum frammi fyrir afleiðingum þess að í stað þess að þeim sem leiddu efnahagslegar hörmungar yfir evrópska alþýðu væri refsað, kapítalistunum, var alþýðan látin finna fyrir refsivendinum, með öllu því samfélagslega uppnámi sem því fylgir þegar stórir hópar eru látnir bera ómanneskjulegar byrðar.“
Hún sagði augljóst að ekki sé hægt lengur að leyfa hinum auguðu sem koma innan úr hliðarveruleika fjármagnseigenda að halda áfram að leggja hinar efnahagslegu línur.
„Við erum stödd í grafalvarlegum stéttaátökum þar sem yfirstéttin gerir ekkert til að draga úr óróa og reiði fólks yfir öllu því óréttlæti sem það er látið lifa við, heldur sýnir þvert á móti í auknum mæli forherðingu gagnvart vinnuaflinu.
Átökin eru raunveruleg, það er ekki hægt að nota einhverja töfrahugsun eða sigur viljans til að láta sem antagónisminn á milli vinnuaflsins og kapítalista séu ekki algjörlega í miðju þess sem á sér stað í samfélaginu.
Vegna þessvegna að átökin eru raunveruleg ætlum við að snúa vörn í sókn.
Ný verkalýðshreyfing ætlar að stunda verkalýðspólitík. Við ætlum ekki að samþykkja að staða hagsveiflunnar eigi að ráð því hverju vinnandi fólk hefur rétt á.
Við erum stödd í grafalvarlegum stéttaátökum
Við notum útreikninga til að rökstyðja málflutning okkar en við notum líka tilfinningar; af því við trúum því ekki að guð sé Homo Economicus með reiknivél í stað sálar, af því að við trúum því að líf hverrar manneskju sé meiri virði en allt ríkidæmi hins ríkasta,“ sagði formaður Eflingar ennfremur.
Hún sagði að vinnuaflið eigi að vera hið ráðandi afl í samfélaginu, það keyri áfram hagvöxtinn og búi til hin raunverulegu verðmæti.
„VIð erum einfaldlega búin að sjá í gegnum áróðurinn um brauðmolana og við erum búin að sjá í gegnum hina ógeðslegu væntingastjórnun á lágtekjuhópana sem hér hefur verið stunduð og hefur nú umbreyst í það að íslenska hótana-mafían hefur fengið frítt spil til að hræða og þvaðra.“