Um þessar mundi fagnar Frímúrareglan á Íslandi hundrað ára blómlegu starfi á Íslandi. Á landsvísu stunda nú á fjórða þúsund manna mannræktarstarf saman innan veggja hennar.
Ástæður þess að menn laðast að Frímúrarareglunni eru mjög misjafnar. Í jólahefti Frímúrarans, blaðs Frímúrara, eru nefnd nokkur atriði sem bræður innan reglunnar hafa nefnt sem ástæður þess að þeir óskuðu aðildar að hinni ævafornu reglu.
- Þekki menn sem ég vissi að voru í reglunni og það kveikti áhuga minn á þessum félagsskap
- Hef áhuga á mannrækt og líknarstarfi
- Langaði til að taka þátt í félagsstarfi til að kynnast góðum mönnum
- Sögulegur áhugi á uppruna frímúrarastarfs út af bókum og kvikmyndum
- Kynnti mér starfsemi Frímúrarareglunnar á Íslandi og víðar með því að lesa um þennan félagsskap á netinu og eitt leiddi af öðru
- Vinur minn sem er í reglunni tók mig tali og kynnti mér starfsemina sem leiddi til þess að ég fékk áhuga
- Faðir minn var frímúrari og það virðist hafa verið skrifað í skýin að ég gengi sömu leið
- Tengdafaðir minn hreinlega spurði mig hvort ég hefði áhuga á að kynnast reglunni og það leiddi til þess að ég fékk áhugann og sótti um.
„Þessar og margar fleiri ástæður heyrast nefndar fyrir því að menn sækja um inngöngu í þennan ævaforna félagsskap.
En án efa er það á endanum áhugi á því að kynnast öðrum mönnum með lík áhugamál og gildi, þ.e.a.s. mannrækt á kristnum grunni, sem er öðrum ástæðum sterkari við ákvörðunina um að sækja um aðild að Frímúrarareglunni,“ segir í Frímúraranum.
Er ekki leynifélag
„Mörgum þykir starfið vera hulið hjúpi dulhyggju og jafnvel leyndar, þar sem trúnaður hvílir yfir fundarsiðum. En staðreyndin er nú samt sú að Frímúrarareglan er ekki leynifélag.
Á heimasíðu reglunnar eru ítarlegar upplýsingar um starfið, sem og krækjur á önnur samtök frímúrara sem viðurkennd eru af íslensku reglunni. Bæði eru þar samtök frímúrara á norðurlöndum sem byggja á svo kölluðu sænsku kerfi frímúarara og tenglar á ensku Frímúrararegluna og fleiri. Það ætti því að reynast mönnum auðvelt að afla sér grunnupplýsinga um starfið.
Reglan sinnir velgjörðarverkefnum, sem er auðvitað hluti af innihaldsríkri mannrækt. Þetta kemur sumum á óvart, því að lítið er um fregnir af slíku í fjölmiðlum, en það er af ásettu ráði, því að frímúrurum er ljúft og skylt að fremja góðverk án þess að eftir því sé tekið, og án þess að upphefja sjálfa sig fyrir vikið.
Þá veitir Reglan styrki til ýmissa verkefna og eru allar styrkveitingar byggðar á eigin fjárframlögum bræðra.
Uppruni reglunnar í þeirri mynd sem hún starfar hér á landi er rakinn allt aftur til 18. aldar. Eins og margir vita, er hún ætluð karlmönnum sem náð hafa 24 ára aldri og íslenska reglan gerir kröfur um að viðkomandi sé kristinnar trúar. Reglan á Íslandi er sjálfstæð og engum háð öðrum en löglegum íslenskum yfirvöldum.
Með því að ganga í íslensku Frímúrararegluna eru menn því ekki að tengjast samtökum sem hlýta yfirráðum neins annars valds en rétt kjörinna yfirvalda á Íslandi. Reglan á hins vegar gott samstarf við reglurnar á norðurlöndum og í fjölda annarra landa. Gagnkvæmur heimsóknarréttur er milli stúkna í þessum reglum, ef viðkomandi regla er viðurkennd af íslensku reglunni.
Breytingar á samfélaginu hafa og munu að sjálfsögðu hafa áhrif á Frímúrararegluna eins og flest önnur mannanna verk. Þannig má t.d. nefna að á síðari árum hafa bræður stofnað til hópastarfs fyrir bræður innan reglunnar, t.d. með kórastarfi, golfklúbbum og stofnað reiðhjólaklúbb, reiðklúbb, mótorhjólaklúbb og fleira,“ segir þar ennfremur.
Í greininni segir einnig:
„Ef þú lesandi góður hefur áhuga á að kynnast Frímúrarareglunni á Íslandi er þér bent á upplýsingar um hana á netinu, á heimasíðu hennar www.frimurarareglan.is eða með því að setja þig í samband við einhvern bróður innan hennar sem án efa er reiðubúinn að veita þér leiðsögn og upplýsingar með hvaða hætti þú getur sótt um aðild að henni.“
Þessi grein er hluti af safni Viljans af jákvæðu, fræðandi og uppbyggilegu efni. Okkur finnst vanta meira af slíku efni á Netinu. Þótti þér þessi grein fróðleg? Deildu henni þá til þeirra sem þú telur að gætu haft gagn að henni.