Áfrýjun hæstaréttardómara vegna gagnrýni enn í lausu lofti

Jóni Steinari Gunnlaugssyni var stefnt af Benedikt Bogasyni hæstaréttardómara vegna bókar.

„Dómarar, og sérstaklega þá í Hæstarétti Íslands hafa um allanga hríð, sóst eftir völdum til að ákveða hverjir verða skipaðir nýir dómarar.“ Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður, gaf árið 2017 út bókina „Með lognið í fangið – Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“. Í bókinni gagnrýndi hann Hæstarétt Íslands harðlega – og telur hann í einhverjum tilfellum hafa látið undan þrýstingi umræðunnar og kröfum um refsingar, á kostnað grundvallarréttinda sakborgninga í réttarríkinu.

Viljinn tók Jón Steinar tali, en hann bíður þess nú að mál Benedikts Bogasonar, hæstaréttardómara og formanns dómstólasýslunnar, gegn sér, verði tekið fyrir í Landsrétti. Málið höfðaði Benedikt gegn Jóni Steinari, þar sem Jón Steinar hafði í bókinni m.a. gagnrýnt harðlega dóm í máli ákæruvaldsins gegn Baldri Guðlaugssyni f.v. ráðuneytisstjóra, og kallað dóminn „dómsmorð“. Svo virðist sem Baldur hafi t.a.m. verið dæmdur fyrir annað en það sem hann var ákærður fyrir, auk þess sem Hæstiréttur gaf út samantekt á málinu, sem var breytt eftir á, en skjáskot af báðum útgáfunum má sjá í bókinni. Einn dómara í máli ákæruvaldsins gegn Baldri, var Benedikt Bogason, og í málatilbúnaðinum gegn Jóni Steinari, krafðist Benedikt miskabóta upp á tvær milljónir, auk þess að eftirfarandi ummæli úr bókinni verði dæmd dauð og ómerk:

 „1. Dómsmorð (bls. 61), 2. Dómsmorð (bls. 63), 3. Ég hika ekki við að segja að á Baldri hafi við meðferð Hæstaréttar verið framið það sem kallað hefur verið dómsmorð (bls. 63), 4. Þessi skilgreining á vel við málið gegn Baldri. Felldur var dómur, sem dómararnir vissu, eða að minnsta kosti hlutu að vita, að ekki stóðst hlutlausa lagaframkvæmd (bls. 63) og 5. Þar voru færð rök að því að meirihluti réttarins hefði fellt dóm yfir ákærða sem að mínum dómi félli undir hugtakið dómsmorð eins og það hefur verið skýrt (bls. 114).“

Tapaði málinu í héraði en er ekki hættur

Benedikt tapaði málinu fyrir héraðsdómi, en lögmaður hans var Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, sá hinn sami lögmaður og áfrýjaði máli annars umbjóðanda síns vegna játningarmáls í ölvunar- og fíkniefnaakstri, til Mannréttindadómstóls Evrópu, en niðurstaðan setti Landsrétt í uppnám fyrir nokkrum mánuðum. Benedikt áfrýjaði til Landsréttar, og ákveðið hafði verið að Landsréttardómararnir Arnfríður Einarsdóttir, Oddný Mjöll Arnardóttir og Jón Finnbjörnsson fengju málið til meðferðar. Eftir að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu lá fyrir, var málið, sem flytja átti þann 1. apríl sl., tekið af dagskrá Landsréttar, en Arnfríður og Jón eru tveir af fjórum þeirra dómara, sem þá dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, lagði til að yrðu Landsréttardómarar, í stað annarra fjögurra sem matsnefnd hafði mælt með.

Viljinn spurðist fyrir um, hvenær málið yrði aftur á dagskrá réttarins og hvaða dómarar fengju það til meðferðar. Eftirfarandi svar barst frá skrifstofustjóra Landsréttar þann 6. ágúst sl.: 

Ekki hefur verið ákveðið hvenær málflutningur í nefndu máli fer fram, né heldur til fullnustu hvaða dómarar Landsréttar munu fara með málið.

Óeðlilegt að reyna að stöðva gagnrýni

Jóni Steinari finnst ekki eðlilegt að reynt sé að koma í veg fyrir gagnrýni á dómstólana, t.d. með þeim hætti sem hann telur vera gert með málsókn Benedikts gegn sér. Hann vildi rekja aðdraganda þess í hvaða farvegi málið er í núna.

„Þegar að verið er að ákveða aðferðir við að skipa nýja dómara, þá eru kannski aðallega tvö atriði sem koma þar inn í myndina. Annað er að við viljum ekki að dómarar séu pólitískt skipaðir, það er, til að verða varðhundar fyrir einhver pólitísk sjónarmið. Annað sem þarf að varast að mínu mati, er að dómarar sem sitja á fleti fyrir, eiga ekki að ráða því hverjir koma inn í hópinn, því að þá skapast bara einhver kunningjasamfélagsklíka – gamlir skólabræður o.s.fr.v.,“ segir Jón Steinar.

„Árið 2010, í ráðherratíð Ögmundar Jónassonar, lét hann þeim það eftir í Hæstarétti, að setja inn í dómstólalögin ákvæði, sem kveður á um það að dómnefndin sem metur hæfi umsækjenda um dómarastöðu, skuli raða þeim upp. Þessi nefnd er skipuð af fulltrúum „lögfræðingaelítunnar“ sem stjórnar þessu öllu saman, og hún á að raða þeim upp. Ráðherranum er þá óheimilt, að skipa annan en þann sem nefndin hefur raðað í efstu sætin. Ef ráðherrann víkur frá þeirri röð, getur hann borið það undir Alþingi. Það eru mörg dæmi um það, sem ég hef nefnt, að þessi nefnd hefur misbeitt þessu valdi, þ.e.a.s. sett menn í óeðlilega röð vegna einhvers kunningsskapar o.þ.h.“

Hæstiréttur Íslands. Aftari röð f.v.:  Ingveldur Einarsdóttir, Benedikt Bogason, Gréta Baldursdóttir,  Helgi Ingólfur Jónsson, Karl Axelsson. Fremri röð f.v.:  Þorgeir Örlygsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson.

„Þetta er bara valdarán“

„Þegar var verið að skipa í fyrsta skipti dómara í Landsrétt, þá er sérákvæði í lögunum um það, bráðabirgðaákvæði í dómstólalögum, af því að skipa átti 15 dómara í einu í Landsrétt. Í því er kveðið á um að nefnd skuli meta hæfi þeirra sem sækja um, og ráðherra á ekki að skipa þá, heldur á ráðherra að gera tillögu til Alþingis, um það hverjir skulu skipaðir og Alþingi síðan að skipa þá. Þetta gerði Sigríður Á. Andersen, sem þá var dómsmálaráðherra. Hún tók fjóra, sem ekki höfðu verið í einu af 15 efstu sætunum hjá umsagnarnefndinni og setti þá inn, í sína tillögu til Alþingis, og fjórir fóru þá út í staðinn. Henni var legið á hálsi fyrir þetta, þó það stæði hvergi að henni væri skylt að gera tillögu um þá sem að þessi nefnd hafði raðað efst. Þeir umsækjendur sem hún valdi, hafa allir verið metnir hæfir. Í stjórnarskránni, þá er það alveg skýrt, að það er ráðherra sem ber ábyrgð á öllum stjórnarframkvæmdum, ekki einhver nefnd. Það var gert ráð fyrir því í lögunum, að ráðherra gerði svona tillögu til Alþingis. Sigríður gerði því ekkert annað en það sem lögin sögðu að hún ætti að gera.“

Viljinn: Var Hæstiréttur þá ekki að dæma eftir lögunum, þegar hann dæmdi að dómsmálaráðherra hafi brotið stjórnsýslulög?

„Nei, og þetta er bara valdarán. Það er hræðilegt að dómstólar í landinu taki þátt í því. Af því að við viljum að dómstólar dæmi bara eftir lögunum, en séu ekki í einhverjum átökum við ráðherra og Alþingi um svona atriði. Sitjandi dómarar eiga ekki að koma nálægt því, hverjir verða skipaðir nýir dómarar. Þetta er framkvæmdavaldsathöfn. Það er auðvitað sjálfsagt að meta hæfni og gera þetta allt fyrir opnum tjöldum, en sitjandi dómarar eiga ekki að ákveða þetta, eins og þeir hafa núna fengið vald til að gera. Svo verða þeir svo reiðir, þegar ráðherra fer ekki eftir tillögu sem nefndin þeirra gerði, excel-skjalinu sem er aðhlátursefni allra sem það lesa. Síðan gerist það að einhverjir þeirra fjögurra sem voru í tillögu nefndarinnar, en fengu ekki dómarastöðu, fóru í mál við íslenska ríkið, og fengu dæmdar miskabætur í Hæstarétti. Fyrir það að hafa sótt um embætti, en ekki fengið. Það er auðvitað bara brandari, og í þessu tilfelli valdbeiting, að fá dæmdar miskabætur vegna starfs sem maður sækir um, en fær ekki.“

„Síðan gerist að maður sem er dæmdur í Landsrétti fyrir umferðarlagabrot. Maðurinn hafði játað brotið fyrir héraðsdómi, því er áfrýjað til Landsréttar og maðurinn játar aftur brotið. Hann kærði málsmeðferðina til Hæstaréttar, sem komst að því að Landsrétturinn, með Arnfríði Einarsdóttur innanborðs (sem er ein þeirra fjögurra dómara sem ráðherra lagði til), hefði verið réttilega skipaður.  Þá datt honum í hug, eða lögmanni hans, Vilhjálmi Hans Vilhjálmssyni, að kæra málsmeðferðina til Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg. Ekki hafi verið lögleg málsmeðferð hjá Landsrétti, af því að einn dómaranna í máli hans, Arnfríður Einarsdóttir, hafi ekki verið skipaður skv. lögum. Á meðal dómaranna þar, er æskuvinur og félagi Vilhjálms Hans, Róbert Spanó, og kemst dómstóllinn að þeirri ótrúlegu niðurstöðu að á þeim grundvelli hafi verið brotið gegn ákvæði Mannréttindasáttmálans.“

Alþingi skipaði dómarana í Landsrétt

„Það var svo ekki dómsmálaráðherra sem skipaði dómara í Landsrétt, það var Alþingi sem skipaði dómarana. Það er nú enn einn brandarinn, að dómsmálaráðherra hafi þurft að segja af sér, vegna þess að hún tók ekki þessa ákvörðun, heldur það var það Alþingi sem gerði það skv. lögunum. Dómsmálaráðherra gerði tillögu um skipun dómaranna, Alþingi samþykkti tillöguna og forseti Íslands staðfesti ákvörðunina. Forsetinn lét rannsaka hana sérstaklega og tók afstöðu, sem hann gerir nú ekki alltaf, þegar hann staðfesti skipun þessara dómara. Hæstiréttur Íslands hafði einnig komist að þeirri niðurstöðu að dómararnir hafi verið réttilega skipaðir. Allar íslenskar valdastofnanir höfðu talið að þessi dómari væri réttilega skipaður í sitt embætti. Þá er kært til Strassborgar og þessi dómur kemur þaðan, sem er hálfgerður farsi!“

„Það segir skýrum stöfum í Mannréttindasáttmála Evrópu að úrskurðir þaðan hafi ekkert lagalegt gildi á Íslandi, þ.e. séu ekki skuldbindandi. Þessi dómur breytti því engu um ástandið hérlendis. En þá fóru blessuð litlu Íslendingshjörtun að tifa hraðar en þau eru vön, og fjórmenningarnir voru settir út á gaddinn, því það er ekki hægt að víkja þeim úr starfi, skv. stjórnarskránni, nema með dómi. En þeir hafa verið settir út á kant og hafa ekki fengið að dæma síðan. Það er að mínu áliti mjög ámælisvert af Landsrétti að láta fólkið ekki dæma áfram eins og það á að gera. Síðan allt þetta írafár sem hefur risið af þessu. Þetta hafði svo þær afleiðingar, að þegar þessir atburðir urðu, þá er búið að setja mál Benedikts Bogasonar gegn mér á málaskrá hjá Landsrétti, og tilkynna hverjir yrðu dómarar í því. Á meðal þeirra voru Arnfríður, Oddný og Jón. Arnfríður og Jón voru bæði skipuð án þess að hafa verið í 15 manna excel-skjalinu. Flytja átti málið í byrjun apríl á þessu ári, en málið var tekið af málaskrá og þau sett í frí.“

Viljinn: Má setja dómara í frí?

„Dómstjóri Landsréttar skipar dómara í einstök mál. Sú ákvörðun var tekin um að þessir fjórir dómarar skyldu ekki dæma fleiri mál í bili. Þetta hafði þær afleiðingar að mál Benedikts gegn mér, sem átti að flytja 1. apríl sl. var tekið út af dagskrá.“

Erfið staða vegna stöðu Benedikts Bogasonar

Um kæru Benedikts Bogasonar segir Jón Steinar að lokum: „Bókin [Með lognið í fangið – Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun] kom út á fimmtudegi, og á mánudeginum á eftir, þá er Benedikt Bogason hæstaréttardómari, sem er nú ekki einu sinni getið neitt sérstaklega í þessum kafla [Dómsmorð], að öðru leyti en því að sagt er frá hverjir skipuðu dóminn, búinn að stefna mér.“ 

„Ég var sýknaður í héraði, en þetta er auðvitað mjög erfið staða því Benedikt er formaður dómstólasýslunnar, sem hefur m.a. það hlutverk að gera tillögu um fjárveitingar til dómstólanna. Það er ekki eðlileg staða að þessi fyrirsvarsmaður dómstólasýslunnar skuli vera málsaðili í dómsmáli sem dómstólarnir eiga að dæma. Enda lenti Landsréttur í stökustu vandræðum með að skipa dóm þegar málinu var áfrýjað þangað.“