Ákall um að læknar sýni sjúklingum meiri áhuga og samkennd

Heilbrigðisstarfsmenn sinna sjúklingi. Mynd/Wikipedia

Læknar og læknanemar verða svo uppteknir af læknavísindunum, að þeir gleyma tilfinningalegum þörfum sjúklinga sinna, segir forseti Alþjóða læknasamtakanna (World Medical Association, WMA). Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá félaginu í morgun.

Dr. Miguel Jorge, nýkjörinn forseti samtakanna, ávarpaði ársþing WMA í Tbilisi, Georgíu í morgun, og sagði að flestir sem næmu í læknisfræði vildu lina þjáningar fólks. En rannsóknir sýni að eftir námið séu þeir ónæmari fyrir þörfum sjúklinga, en þegar þeir byrjuðu.

„Hvað gerðist í millitíðinni?“ spurði Dr. Jorge, og sagði: „Ein möguleg ástæða er sú, að nemendur verði í auknum mæli áhugasamir líffræðilegt eðli sjúkdóma, en félagslegt umhverfi sjúklinganna og þróun veikindanna. Ekki er nægileg áhersla lögð á að taka tillit til andlegrar líðan sjúklinganna.“

Góður læknir setur sig í spor sjúklingsins

Dr. Miguel Jorge forseti WMA.

Dr. Jorge, sem er forstöðumaður Brasilíska læknafélagsins og dósent í geðlækningum við ríkisháskólann í São Paulo, sagði að góður læknir yrði að geta sett sig í spor sjúklinganna og fundið til með þeim, til að skilja betur þarfir þeirra.

„Í læknishjálp er jafn mikilvægt að hafa samkennd og að geta skoðað sjúklinginn utan frá. Við tölum um að lækningar séu bæði vísindi og list, en á síðustu áratugum hefur þróunin orðið að leggja æ þyngri áherslu á vísindahlið lækninga. Fær læknir á ekki að vinna eins og vélvirki með mannslíkamann, heldur sameina tæknilegt ágæti sitt nálægð við sjúklinginn, virðingu við mannlega reisn, og skilningi og samkennd með líðan hans“.

Bætt tengsl í stað þess að vera fjarlægur

Dr. Jorge sagði að læknar yrðu að læra að nota nýjustu tækni samhliða framþróun læknavísindanna, svo sem samfélagsmiðla, til að bæta tengsl læknis og sjúklings. Ekki megi leyfa sér að halda fjarlægð við sjúklinginn.

Læknar sem starfi við erfiðar kringumstæður, geti oft ekki gert það sem þeir telja best fyrir sjúklinginn vegna skorts á aðstöðu. En Dr. Jorge lagði áherslu á að þeir geti þess í stað reynt að eyða meiri tíma með sjúklingunum, og sýnt þeim samkennd og áhuga.