Ákveðinn skellur fyrir borgaralegu öflin: Sósíalismi tryggir konum betra kynlíf

Þegar Berlínarmúrinn féll árið 1989 var ung bandarísk kona, Kristen R. Ghodsee að nafni, að ferðast um Evrópu. Hún varði sumrinu árið 1990 í austurblokkinni og kynntist af eigin raun þeirri ótrúlega hröðu breytingu og gleðibylgju sem fylgdi falli kommúnismans. Hin pólitíska og efnahagslega upplausn sem fylgdi í kjölfarið fékk Ghodsee til þess að rannsaka betur samfélagsleg áhrif þessara breytinga og hún fór í mannfræði. Rannsóknir hennar beinast ekki hvað síst að því hvaða áhrif það hafði á venjulegt fólk að hverfa frá sósíalísku þjóðskipulagi yfir í markaðsskipulag — hvaða áhrif tilkoma kapítalismans hafði á stöðu kynjanna.

Mörgum árum seinna er Ghodsee orðin prófessor í rússnesku og austur evrópskum fræðum í Háskólanum í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum og hefur unnið til fjölda viðurkenninga fyrir fræðastörf sín. Hún hefur m.a. ritað greinar í blöð á borð við New York Times og Foreign Affairs, en ný bók eftir hana er að vekja alþjóðlega athygli, en þar veltir hún því upp hvers vegna svo virðist sem konur njóti betur kynlífs í sósíalískum samfélögum.

Könnun meðal kvenna sem komu frá Austur- og Vestur Þýskalandi sem sameinaðist svo í eitt Þýskaland, við fall Berlínarmúrsins, leiðir í ljós að austur-þýskar konur hafa tvöfalt oftar fullnægingu, en þær sem koma úr vesturhlutanum.

Hvað getur skýrt þennan mun? Ghodsee hefur sagt að málið snúist ekki síst um félagslegt öryggisnet og velferðarsamfélagið. Sósíalisminn eða jafnaðarstefnan hafi lagt áherslu á að byggja undir konur og refsa þeim ekki á vinnumarkaði fyrir að eignast börn. Það tryggi þeim aukna hamingju og betra kynlíf.

Talar ekki fyrir afturhvarfi til kommúnismans

Ghodseen talar alls ekki fyrir afturhvarfi til kommúnismans sem gekk ekki upp sem þjóðskipulag, eða að einfalt val standi millum kapítalisma og sósíalisma, en hún bendir á að ýmis grungildi jafnaðarstefnunnar eða sósíalismans komi sér betur í baráttu kvenna fyrir auknum réttindum en það sem boðið er upp á í vestrænum markaðssamfélögum.

Jafnaðarstefnan bjóði upp á fleiri möguleika þegar kemur að dagvistun barna, fæðingarorlofi og ummönnun aldraðra, en hvort tveggja lendi oft á herðum kvenna í hinni dæmigerðu verkaskiptingu kynjanna. Þær „festist því meira heima“ og byggi ekki upp eigin starfsframa og þurfa fremur að reiða sig á fyrirvinnuna sem er eiginmaðurinn og verða síður sjálfstæðar í einkalífi og starfi. Það geti leitt til óhamingjusamra hjónabanda og verra kynlífs.

Hún bendir á að mörg vestræn lýðræðisríki hafi í reynd tekið upp margt úr þessari stefnu án þess að varpa lögmálum markaðarins fyrir róða. Nægi að nefna Norðurlöndin, Kanada og Ástralíu í því sambandi.