Aldrei áður jafn hispurslaus lýsing á raunverulegri stöðu Wow

Skúli Mogensen, forstjóri Wow air.

Af lestri fjölmiðla í dag má ráða, að landsmenn fylgjast grannt með tíðindum af WOW air og forstjóranum Skúla Mogensen. Öll spjót standa á Skúla, segir á forsíðu Fréttablaðsins og Morgunblaðið segir í forsíðufrétt að hann setji nú þrýsting á kröfuhafa. Netmiðlar gera stöðunni glögg skil, það er spenna í lofti og ekki aðeins starfsfólk félagsins heldur landsmenn allir bíða með öndina í hálsinum og vonast eftir farsælum lyktum.

Flestum ber saman um að Skúli hafi leikið af sér með bréfi til starfsfólks á mánudag þar sem hann gaf í skyn að viðræður stæðu yfir við fleiri aðila en Icelandair. Þetta kom forsvarsmönnum Icelandair í opna skjöldu, enda voru þeir með undirritaðan kaupsamning á Wow í höndunum. Og einnig Samkeppniseftirlitinu sem hafði verið sagt að hætta væri á gjaldþroti Wow, ef samruninn næði ekki fram að ganga.

Allt annar og raunsærri tónn var kominn í Skúla í bréfi sem hann skrifaði í gær til þeirra fjár­festa sem tóku þátt í skulda­bréfa­út­boði WOW air í sept­em­ber. Þar viðurkennir hann að það sé ekki auðvelt að skrifa slíkt bréf, en staðan hafi einfaldlega versnað mjög hratt og nauðsynlegt sé að leita fleiri leiða til að tryggja framtíð flugfélagsins.

Stefán Einar Stefánsson, viðskiptaritstjóri Morgunblaðsins, segir í blaði dagsins að heimildir Morgunblaðsins hermi að með bréfi sínu til lán­ar­drottna WOW air hafi Skúli gengið eins langt og hon­um var unnt í þeirri viðleitni að koma viðsemj­end­um sín­um í skiln­ing um að grípa þyrfti til dra­stískra aðgerða ef bjarga ætti fé­lag­inu.

„Aldrei fyrr hef­ur á op­in­ber­um vett­vangi birst jafn hisp­urs­laus lýs­ing stofn­anda fé­lags­ins á raun­veru­legri stöðu fé­lags­ins,“ segir í frétt Morgunblaðsins.