„Aldrei betri tími en nú, til að einkavæða bankana“

Edward P. Stringham, forseti AIER, hélt erindi á ráðstefnunni Frelsi og framtíð í haust. Ljósmynd/Erna Ýr Öldudóttir

„Öll lönd sem eru með ríkisbanka, ættu að finna leiðir til að einkavæða þá sem allra fyrst.“ 

Þetta var á meðal þess sem Edward Peter Stringham, forseti Bandarísku stofnunarinnar um hagrannsóknir (American Institute for Economic Research, AIER), og prófessor við Trinity College í Bandaríkjunum, sagði í viðtali við Viljann fyrr í haust.

Stringham hélt erindi á ráðstefnunni Frelsi og framtíð, sem Europen Students for Liberty, auk stofnunarinnar sem hann sjálfur stýrir, AIER, og tímaritið Þjóðmál, stóðu fyrir 6. september sl. Viljinn spurði hann út í fyrirhugaða sölu ríkisins á bönkunum á Íslandi.

Viljinn: Telurðu rétt að íslenska ríkið selji bankana á þessum tímapunkti?

„Já, ég tel að ein mikilvægasta grunnstoð hagkerfisins sé fjármálageirinn. Hann færir saman sparifjáreigendur og fjárfesta og gerir þeim kleift að fjármagna atvinnulífið og lána einstaklingum og fyrirtækjum. Þegar slík þjónusta er ekki í umsjón markaðaðarins, þá er verið að taka einn mikilvægasta þátt hagkerfisins, út úr því sem markaðurinn gerir best, að færa saman framboð og eftirspurn.“

„Í Bandaríkjunum varð það að stórkostlegu klúðri, að ríkisvæða bankana Fanny Mae and Freddie Mac, og engin umræða var um hvernig ætti að komast út úr þeim ógöngum. Þetta skapaði mikla óvissu á bandarískum fjármálamörkuðum. Nú er verið að ræða að einkavæða þessa banka aftur. Öll lönd sem eru með ríkisbanka, ættu að finna leiðir til að einkavæða þá sem allra fyrst.“

Viljinn: En eru það góð kaup í dag, þegar ný fjármála- og greiðslutækni er að ryðja sér til rúms, að kaupa banka, sem þurfa að búa við níðþungt regluverk?

„Ég þekki ekki hvernig bankar á Íslandi eru að standa sig, en í Bandaríkjunum eru hefðbundnir bankar stöðugt að fylgja nýrri þróun með nýsköpun. Það kemur í raun á óvart, hvað þeir ná að standa sig vel í því. Fjármálaþjónustugeirinn hefur verið að skila betri árangri  en hlutabréfamarkaðurinn almennt, í Bandaríkjunum.“

Bönkunum gengur betur í léttara regluverki

„Afregluvæðingin, sem átt hefur sér stað undanfarið, tel ég eiga stóran þátt í því hve vel gengur. Ýmsar áskoranir, sem bankarnir hafa orðið að mæta, og hafa hindrað þá í að taka góðar rekstrarlegar ákvarðanir, hafa verið fjarlægðar. Það eru enn margir steinar í götu bankanna, sem eru enn ekki eins frjálsir og þeir gætu og ættu að vera. Þrátt fyrir það virðist vera umtalsverð nýsköpun hjá þeim. Varðandi íslensku bankana, jafnvel þó svo að þeir eigi á hættu að verða undir í samkeppni við nýja og frjálsari tækni, þá er aldrei betri tími en nú, til að einkavæða þá. Ástæðan er sú, að þeir hefðu gott af því að starfa á fullum samkeppnisgrundvelli. “

„Fjármálatækni (e. FinTech), er risastór ný grein. Hið opinbera ætti ekki að vera þátttakandi í þeirri samkeppni, eða reyna að aðlaga gamlar stofnanir. Leyfum þessum fyrirtækjum að keppa á frjálsum markaði. Kannski verður eðlilegt framhald, að þau standist þessar breytingar, en verði ekki jafn mikilvæg og áður. PayPal, er tiltölulega nýtt fyrirtæki, aðeins um það bil 20 ára gamalt. Það stendur nú jafnfætis einhverjum stærstu greiðslumiðlurum heims. Samkvæmt mörgum hefðbundnum viðmiðum um banka, þá telst PayPal vera banki. Við ættum að leyfa þessum nýju fyrirtækjum að spretta upp meðfram, og sigra eldri og lakari aðferðir við að gera hlutina.“