Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur lýst yfir alþjóðlegu neyðarástandi vegna kóróna-veirunnar, eftir neyðarfund sem haldinn var í Genf í Sviss í dag. Frá þessu greinir AP fréttastofan í kvöld.
Veirusmitsins varð fyrst vart í borginni Wuhan í Kína. Fundurinn var haldinn í ljósi þess að smit hefur nú greinst í meira en tylft landa og hefur fjöldi greindra tilvika tífaldast á viku. Heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna (SÞ) skilgreinir alþjóðleg neyðartilvik sem „óvenjuleg“ sem feli í sér hættu og þarfnist samræmdra alþjóðlegra viðbragða.
Kína upplýsti WHO fyrst um smit vegna veirunnar í lok desember. Fram að þessu hefur Kína staðfest meira en 7.800 tilfelli, þar af 170 dauðsföll. Átján önnur lönd hafa greint frá smiti og vísindamenn keppast við að reyna að skilja hvernig nákvæmlega vírusinn dreifist og hversu alvarlegur hann er.
Sterkar vísbendingar um að veiran berist manna á milli
Sérfræðingar segja að sterkar vísbendingar séu um að vírusinn berist á milli fólks í Kína og hafa haft áhyggjur af nokkrum tilvikum í öðrum löndum – þar á meðal Japan, Þýskalandi, Kanada og Víetnam – þar sem einnig er grunur um smit manna á milli. Rússland, Mongólía og Norður-Kórea hafa lokað landamærum sínum fyrir ferðalögum frá Kína.
Kínversk yfirvöld hafa krafist þess að allir sem ferðast til og frá Wuhan tilkynni það til heilbrigðisyfirvalda og séu í sóttkví í 14 daga, sem er hámarks meðgöngutímabil veikinnar, þar sem sjúklingar geta verið smitandi jafnvel þó þeir séu einkennalausir.
Upplýsingagjöf kínverskra stjórnvalda betri nú en áður
Kína hefur að miklu leyti verið hrósað fyrir skjót og áhrifarík viðbrögð, þó að spurningar hafi vaknað um kúgun yfirvalda á því sem snemma var talið eingöngu sögusagnir – endurspeglun á ákvörðun eins flokks kommúnistaríkisins um að einoka upplýsingamiðlun þrátt fyrir snjallsíma og samfélagsmiðla.
Þetta þykir viðsnúningur miðað við fyrstu viðbrögð við SARS-veirunni, þegar upplýsingar voru faldar sem ríkisleyndarmál. Tregða í upplýsingagjöf þá var kennt um að hafa leyft sjúkdómnum að breiðast út um allan heim og 800 manns að aldurtila.