Andlát: Dr. Einar Sigurbjörnsson prófessor

Einar prófessor Sigurbjörnsson á prestastefnu 2011. Ljósmynd: Árni Svanur Daníelsson.

Látinn er í Reykjavík Einar Sigurbjörnsson prestur og prófessor emeritus í guðfræði. Hann var 75 ára að aldri.

Einar varð stúdent frá frá MR 1964 og Cand. theol. frá HÍ 7. júní 1969.

Framhaldsnám í trú- og játningafræði við Lundarháskóla 1970-74 og fékk þar doktorsgráðu.

Settur sóknarprestur í Ólafsfirði 25. júní 1969 og vígður 22. sama mánaðar. Lausn frá embætti 1. september 1970.

Settur sóknarprestur í Hálsprestakalli 1. ágúst 1974, fékk Reynivelli 23. júní 1975.

Skipaður prófessor í guðfræði með trúfræði sem aðalkennslugrein frá 1. janúar 1978. Kenndi jafnframt um tíma trúarheimspeki, embættisgjörð og hafði umsjón með messuflutningi.

Forseti guðfræðideildar 1981-85, 1990-93 og 2004-2006. Varaforseti háskólaráðs 1983-1985.

Í stjórn Guðfræði­stofnunar og förstöðumaður stofnunarinnar um árabil.

Einar var sonur Sigurbjörns Einarssonar biskups og bróðir Karls biskups.

Eftirlifandi eiginkona hans er Guðrún Edda Gunnarsdóttir.

Blessar Guð Ísland?

Í hugvekju árið 2009, velti Einar því fyrir sér hvort Guð blessaði Ísland og vísaði þar í frægt ávarp forsætisráðherrans, Geirs H. Haarde:

„Blessar Guð Ísland?

Já, Guð blessar Ísland því að blessun Guðs er það sem við lifum, hrærumst og erum í. 

Dr. Einar Sigurbjörnsson. 1944-2019.

Án blessunar Guðs drögum við ekki andann, hugsum ekki, tölum ekki, áætlum ekki, framkvæmum ekki. 

Meðan við njótum lífsins og gjafa þess njótum við blessunar Guðs. Ég minni á skýringu Lúthers á upphafsorðum trúarjátningarinnar: Ég trúi á Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar.

Hvað er það? spyr Lúther og svarar: „Ég trúi að Guð hafi skapað mig og alla hluti, hafi gefið mér líkama og sál, augu, eyru og alla limi, skynsemi og öll skilningarvit og haldi því enn við; auk þess klæði og skæði, mat og drykk, hús og heimili, maka og börn, akur, fénað og öll gæði; sjái mér ríkulega og daglega fyrir öllum þörfum og fæðslu þessa líkama og lífs; verndi mig gegn allri hættu, og gæti mín og varðveiti mig frá öllu illu; og allt þetta af einskærri, föðurlegri, guðlegri gæsku og miskunn, án allrar minnar verðskuldunar og tilverknaðar. En fyrir allt þetta ber mér skylda til að þakka honum og vegsama hann, þjóna honum og hlýða. Það er vissulega satt.“ 

Allt sem við erum, eigum og njótum er gjafir Guðs sem við eigum að nota honum til þakklætis, dýrðar, þjónustu og hlýðni. 

Meðan við þökkum Guði, vegsömum hann, þjónum honum og hlýðum játum við við hvern við erum í skuld og hverjum við eigum að gera reikningsskil. 

Ef þökkin, vegsemdin, þjónustan og hlýðnin víkur fyrir hinu gagnstæða minnir Guð á vald sitt með því að mótsögn blessunarinnar kemur í ljós. 

Hallgrímur og Vídalín nefndu það opinberun reiði Guðs. 

Meðan uppgangurinn í efnahagslífinu var sem mestur hér á landi og í nágrannalöndunum framgengu menn í trássi við ef ekki beinlínis afneitun á lögmáli skaparans og í stað þakklætis, lofgjörðar, þjónustu og hlýðni var eigingirnin, makræðið og græðgin sett í öndvegi. 

Slíkt er ómennskt og kallar á tröllsku í stað mennsku.“