Áreitnin átti sér stað á skrifstofum Kjarnans: Ágúst Ólafur var hluthafi

Hjálmar Gíslason, stjórnarformaður Kjarnans.

Stjórn og stjórn­endur Kjarn­ans standa, og hafa stað­ið, 100 pró­sent á bak við starfs­mann fyr­ir­tæk­is­ins sem var í sumar þol­andi áreitni þing­manns, segir Hjálmar Gíslason, stjórnarformaður Kjarnans miðla, í yfirlýsingu sem birtist á vefmiðlinum nú í morgun.

Bára Hulda Beck, blaðakona á Kjarnanum, hefur stigið fram og opinberað að hún sé konan sem Ágúst Ólafur áreitti sl. sumar og yfirlýsing hans sl. föstudag um málið sé ekki í samræmi við hennar upplifun.

Ágúst Ólafur er f.v. hluthafi í Kjarnanum og sagði Bára Huld að sú staðreynd geri það að verkum, að hann hefði ekki með neinum hætti misskilið aðstæður.

Niðrandi og óboðleg framkoma

Hjálmar segir að hegðun Ágústs Ólafs hafi verið niðr­andi, óboð­leg og haft víð­tækar afleið­ingar fyrir þann sem varð fyrir henni. Afleið­ingar sem séu bæði per­sónu­legar og fag­leg­ar.

„Stjórn og stjórn­endur Kjarn­ans gerðu þol­anda ljóst frá upp­hafi að hann réði ferð­inni í þessu máli og til hvaða aðgerða hann taldi rétt­ast að grípa. Eftir að fyrir lá við­ur­kenn­ing ger­anda á því sem átti sér stað, en eng­inn sýni­legur vilji til að bregð­ast við hegðun sinni með öðrum hætti, þá ákvað þol­andi að koma vit­neskju um áreitn­ina á fram­færi við stjórn­mála­flokk­inn sem ger­and­inn situr á þingi fyr­ir. Þar var mál­inu beint í far­veg nýstofn­aðrar trún­að­ar­nefnd­ar,“ segir Hjálmar.

Bára Hulda Beck, blaðakona á Kjarnanum.

Gerðist á ritstjórnarskrifstofum Kjarnans

„Vinnu­stað­ur­inn sem Ágúst Ólafur minn­ist á í yfir­lýs­ingu sinni er vinnu­staður minn, Kjarn­inn. Við höfðum hist fyrr um kvöldið með öðrum, haldið áfram spjalli eftir að hafa yfir­gefið bar­inn þar sem við hitt­umst og til­gang­ur­inn með því að fara á vinnu­stað­inn var ein­göngu sá að halda spjalli okkar áfram. Hann er þing­mað­ur, var í opin­beru sam­bandi með annarri konu sem greint hafði verið frá í fjöl­miðlum og fyrr­ver­andi hlut­hafi í Kjarn­an­um. Allt þetta gerði það að verkum að ég hélt að hann hefði ekki með neinum hætti mis­skilið aðstæð­ur,“ segir Bára Huld.

„Mín upp­lifun af þessum aðstæðum var algjört varn­ar­leysi. Það orsak­að­ist af því að ég varð fyrir ítrek­aðri áreitni af hálfu ann­ars ein­stak­lings. Það orsak­að­ist af því að ég var blaða­maður sem varð fyrir áreitni af hálfu þing­manns. Það orsak­að­ist af því að ég var starfs­maður fyr­ir­tækis sem varð fyrir áreitni af hálfu fyrr­ver­andi hlut­hafa í því fyr­ir­tæki. Allt þetta gerði það að verkum að ég hugs­aði að mögu­lega væri starf mitt í hættu. Að ég gæti ekki lengur unnið við það sem ég vinn við þar sem að þarna væri á ferð­inni áhrifa­maður í valda­stöðu,“ bætir hún við.

„Mér fannst ég líka algjör­lega nið­ur­lægð og var gjör­sam­lega mis­boðið vegna ítrek­aðra ummæla hans um vits­muni mína og útlit.

Næstu dagar voru mér erf­ið­ir. Ég fann fyrir kvíða og van­líðan og ég ótt­að­ist áfram að atvikið gæti haft áhrif á starfs­ör­yggi mitt. Meðal ann­ars fyllt­ist ég mik­illi van­líðan þegar ég sá hann í fjöl­miðlum eða mynd af honum á net­inu. Eins kveið ég fyrir því að rekast á hann á förnum vegi eða að þurfa starfa minna vegna að sjá eða hitta hann á þing­inu. Þetta átti eftir að vara næstu mán­uði og gerir í raun enn að vissu leyti,“ segir hún ennfremur.