Stjórn og stjórnendur Kjarnans standa, og hafa staðið, 100 prósent á bak við starfsmann fyrirtækisins sem var í sumar þolandi áreitni þingmanns, segir Hjálmar Gíslason, stjórnarformaður Kjarnans miðla, í yfirlýsingu sem birtist á vefmiðlinum nú í morgun.
Bára Hulda Beck, blaðakona á Kjarnanum, hefur stigið fram og opinberað að hún sé konan sem Ágúst Ólafur áreitti sl. sumar og yfirlýsing hans sl. föstudag um málið sé ekki í samræmi við hennar upplifun.
Ágúst Ólafur er f.v. hluthafi í Kjarnanum og sagði Bára Huld að sú staðreynd geri það að verkum, að hann hefði ekki með neinum hætti misskilið aðstæður.
Niðrandi og óboðleg framkoma
Hjálmar segir að hegðun Ágústs Ólafs hafi verið niðrandi, óboðleg og haft víðtækar afleiðingar fyrir þann sem varð fyrir henni. Afleiðingar sem séu bæði persónulegar og faglegar.
„Stjórn og stjórnendur Kjarnans gerðu þolanda ljóst frá upphafi að hann réði ferðinni í þessu máli og til hvaða aðgerða hann taldi réttast að grípa. Eftir að fyrir lá viðurkenning geranda á því sem átti sér stað, en enginn sýnilegur vilji til að bregðast við hegðun sinni með öðrum hætti, þá ákvað þolandi að koma vitneskju um áreitnina á framfæri við stjórnmálaflokkinn sem gerandinn situr á þingi fyrir. Þar var málinu beint í farveg nýstofnaðrar trúnaðarnefndar,“ segir Hjálmar.
Gerðist á ritstjórnarskrifstofum Kjarnans
„Vinnustaðurinn sem Ágúst Ólafur minnist á í yfirlýsingu sinni er vinnustaður minn, Kjarninn. Við höfðum hist fyrr um kvöldið með öðrum, haldið áfram spjalli eftir að hafa yfirgefið barinn þar sem við hittumst og tilgangurinn með því að fara á vinnustaðinn var eingöngu sá að halda spjalli okkar áfram. Hann er þingmaður, var í opinberu sambandi með annarri konu sem greint hafði verið frá í fjölmiðlum og fyrrverandi hluthafi í Kjarnanum. Allt þetta gerði það að verkum að ég hélt að hann hefði ekki með neinum hætti misskilið aðstæður,“ segir Bára Huld.
„Mín upplifun af þessum aðstæðum var algjört varnarleysi. Það orsakaðist af því að ég varð fyrir ítrekaðri áreitni af hálfu annars einstaklings. Það orsakaðist af því að ég var blaðamaður sem varð fyrir áreitni af hálfu þingmanns. Það orsakaðist af því að ég var starfsmaður fyrirtækis sem varð fyrir áreitni af hálfu fyrrverandi hluthafa í því fyrirtæki. Allt þetta gerði það að verkum að ég hugsaði að mögulega væri starf mitt í hættu. Að ég gæti ekki lengur unnið við það sem ég vinn við þar sem að þarna væri á ferðinni áhrifamaður í valdastöðu,“ bætir hún við.
„Mér fannst ég líka algjörlega niðurlægð og var gjörsamlega misboðið vegna ítrekaðra ummæla hans um vitsmuni mína og útlit.
Næstu dagar voru mér erfiðir. Ég fann fyrir kvíða og vanlíðan og ég óttaðist áfram að atvikið gæti haft áhrif á starfsöryggi mitt. Meðal annars fylltist ég mikilli vanlíðan þegar ég sá hann í fjölmiðlum eða mynd af honum á netinu. Eins kveið ég fyrir því að rekast á hann á förnum vegi eða að þurfa starfa minna vegna að sjá eða hitta hann á þinginu. Þetta átti eftir að vara næstu mánuði og gerir í raun enn að vissu leyti,“ segir hún ennfremur.