Ársverðbólga úr 9,5% í 8,9%

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,85% milli mánaða í júní og við það lækkaði ársverðbólgan úr 9,5% í 8,9%, segir í Hagsjá Landsbankans og er það í samræmivið spár bankans. Framlag innfluttra vara, bensíns, innlendra vara og húsnæðis til ársverðbólgu lækkaði milli mánaða, en framlag þjónustu jókst.

Liðurinn reiknuð húsaleiga hækkaði um 1,63% á milli mánaða í júní, þar sem íbúðaverð hækkaði um 0,99% og framlag vaxtabreytinga var 0,64%.

„Við eigum enn von á að verðbólgan hjaðni hægt næstu mánuði. Spá okkar gerir núna ráð fyrir að verðbólgan mælist 8,0% í júlí, 8,1% í ágúst og 8,2% í september,“ segja hagfræðingar Landsbankans.