Ásta Guðrún pírati: Grátur og gnístran tanna úti í Brussel í dag

Ásta Guðrún Helgadóttir, fv. þingmaður Pírata, er með tárin í augunum úti í Brussel.

„Óraunverulegt dagur genginn í garð og skrýtin stemning hér á Evrópuþinginu“, segir Ásta Guðrún Helgadóttir, f.v. þingmaður Pírata og ráðgjafi hjá Evrópusambandinu á facebook í dag, þar sem hún virðist stödd á Evrópuþinginu í Brussel.

„Í dag munu þingmenn Evrópuþingsins kjósa um Brexit-samninginn. Fréttamenn eru á hverju strái og starfsfólk jafnt sem þingmenn með tárin í augunum. Þingflokksfundir flestra flokka æfa „Auld Lang Syne“ til að syngja að atkvæðagreiðslu lokinni,“ segir Ásta Guðrún jafnframt, en lagið er gamalt og skoskt, og gjarnan sungið um áramót í hinum enskumælandi heimi, um gömlu góðu dagana.

„Eftir helgi þá verður ekkert Bretland í Evrópusambandinu og við taka erfiðar viðræður um það hvernig framtíðarsamband Bretlands og Evrópusambandsins mun líta út. Fyrir Evrópusinna eins og mig, þá er ég með tárin í augunum. Ég vona að þetta verði, eins og áður hefur verið sagt, „au revoir“ en ekki „adieu“.“