Aukin verðmæti verða ekki til með skattheimtu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra kveðst áhyggjufullur yfir því að helstu hugtök hagfræðinnar eigi ekki lengur upp á pallborðið í forsætisráðuneytinu. Þar sé nú litið á skattheimtu sem verðmætasköpun, þvert á alla almenna skynsemi.

Þetta kom fram í samtali Sigmundar Davíðs við Pétur Gunnlaugsson á Útvarpi Sögu í gær. Hann var þar spurður um þau ummæli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, sem féllu á verkalýðsfundi VG nýverið, að sú hagfræðikenning að byggja fyrst og fremst á hagvexti væri að líða undir lok í heiminum.

„Þetta er mjög sérkennilegt að heyra. Þetta eru sjónarmið sem maður heyrði síðast frá forsvarsmönnum Kvennalistans á miðjum níunda áratug síðustu aldar, þá voru þær með þá stefnu að líta framhjá hagvexti, sem væri í eðli sínu neikvæður,“ segir Sigmundur Davíð.

Hann tekur fram að sjálfsagt sé að viðurkenna að hagvöxtur mæli ekki alla hluti og horfa verði til fleiri þátta. Það sé bæði eðlileg umræða og æskileg.

„En það að líta á vöxt hagkerfisins, aukna verðmætasköpun, sem eitthvað sem skipti ekki máli er auðvitað mjög undarlegt viðhorf, og áhyggjuefni þegar það kemur frá forsætisráðherra landsins,“ segir hann og bendir á að umræða í þessa átt hafi stundum verið undirliggjandi í röðum Vinstri grænna, en legið lágt í þessu ríkisstjórnarsamstarfi.

Spurður hvort hægt sé að auka velsæld á Íslandi án hagsældar, segir hann augljóst að svo sé ekki.

„Því miður er það ekki öllum augljóst. Það er ekki hægt að auka velferð fólks nema með aukinni verðmætasköpun. Það eru til flokkar og stjórnmálamenn sem hafa aldrei náð þessu samhengi og halda þess í stað að aukin verðmæti geti orðið til með aukinni skattheimtu. Þeir hafa algjörlega rangt fyrir sér,“ segir Sigmundur Davíð.