
Bandaríkin drógu sig formlega út úr Parísarsamkomulaginu í gær, skv. fréttatilkynningu frá utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo og The Independent greindi einnig frá því í gærkvöldi.
Í tilkynningunni, sem dagsett er 4. nóvember 2019 segir:
„Í dag hófu Bandaríkin að draga sig út úr Parísarsamkomulaginu. Samkvæmt skilmálum sáttmálans, sendu Bandaríkin formlega tilkynningu þess efnis til Sameinuðu þjóðanna. Ákvörðunin tekur gildi einu ári eftir móttöku hinnar formlegu tilkynningar.
Parísarsamkomulagið óréttlát efnahagsleg byrði á almenning
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tók ákvörðunina 1. júní árið 2017, vegna þess hve óréttlát efnahagsleg byrði Parísarsamkomulagið er á bandarískt verkafólk, fyrirtæki og skattgreiðendur. Bandaríkin hafa nú þegar dregið úr öllum gerðum loftmengunar, en um leið stuðlað að hagvexti og framboði á ódýrri orku til almennings. Árangurinn hafi sýnt sig: Dregið hafi úr losun loftmengunar um 74% frá árinu 1970 til ársins 2018. Losun gróðurhúsalofttegunda hafi dregist saman um 13% frá árunum 2005-2017, jafnvel þótt hagkerfið hafi stækkað um 19% á sama tíma.
Hin bandaríska aðferð feli í sér raunveruleikann sem blasir við varðandi mismunandi orkugjafa, og notar allar gerðir orku og tækni á nýtinn og hreinlegan hátt. Þar með talin eru jarðefnaeldsneyti, kjarnorka og endurnýjanleg orka. Í alþjóðlegum umræðum um loftslagsmál, muni Bandaríkin halda áfram að tala fyrir raunhæfum og praktískum valkostum – studdum raungögnum – og sýna að frumkvöðlastarfsemi og frjálsir markaðir leiði til meiri velmegunar, minni losunar og tryggari uppsprettu orku. Bandaríkin muni halda áfram samvinnu við vinaþjóðir til að draga úr áhrifum breytinga á loftslagi og vera í viðbragðsstöðu gagnvart náttúruhamförum. Nú sem fyrr muni Bandaríkin halda áfram rannsóknum, uppfinningum og stuðla að hagvexti, á sama tíma og dregið verði úr losun. Nú sem fyrr séu Bandaríkin reiðubúin að aðstoða vinaþjóðir sínar um heim allan.“
