„Ég er þessi Marvin sem ruggaði bátnum,“ segir Bára Halldórsdóttir, sem var stödd fyrir tilviljun á Klaustri Bar þann 20. nóvember og varð vitni að samræðum þingmanna úr tveimur stjórnmálaflokkum sem hafa vakið þjóðarathygli.
Bára stígur fram í forsíðuviðtali við Stundina í dag, en Stundin, DV og Kvennablaðið fengu frá henni upptökur af samræðum þingmannanna á Klaustur þetta kvöld. „Ég varð bara svo sár og trúði varla því sem ég heyrði,“ segir hún.
Forseti Alþingis hefur beðið fatlaða, hinsegin fólk og konur afsökunar á ummælum þingmannanna, en Bára tilheyrir öllum þremur hópunum.
„Mér bara brá svo þegar ég heyrði hvernig þingmennirnir töluðu. Satt best að segja trúði ég ekki mínum eigin skilningarvitum. Svo ég byrjaði bara að taka upp, án þess að hugsa það neitt lengra. En því meira sem ég hlustaði, því reiðari varð ég, því þarna voru saman komnir valdamiklir menn að spúa hatri yfir minnihlutahópa á almannavettvangi. Ég held að það hafi verið rétt að upplýsa almenning um það sem þarna fór fram og eftir á að hyggja er ég stolt af því,“ segir Bára.