Belgíska ríkisstjórnin fallin vegna Marrakech-samningsins um flóttamenn

Michel, forsætisráðherra Belga.

„Í Belgíu fellur ríkisstjórn vegna þess að forsætisráðherra landsins samþykkti flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna í Marokkó á dögunum. Á Alþingi var málið ekki rætt og formaður utanríkismálanefndar Alþingis segir að samþykkt samningsins skipti engu máli. Íslenska stjórnmálastéttin virðist hafa ákveðið í heild sinni að taka á málum með óbærulegum léttleika tilverunnar á grundvelli hugmyndafræðinnar „þetta reddast“ hvaða vitleysu svo sem þeir gera.“

Þetta skrifar Jón Magnússon, lögmaður og fv. alþingismaður á fésbókina í tilefni fregna frá Belgíu í gær um að forsætisráðherrann Charles Michel hafi lýst því yfir að hann hyggist segja af sér vegna deilna innan ríkisstjórnarinnar um samþykkt Marrakech-samnings Sameinuðu þjóðanna um för flóttafólks. 

Jón Magnússon fv. alþingismaður Sjálfstæðisflokksins og síðar Frjálslynda flokksins.

Ríkisstjórn Michels nýtur ekki lengur stuðnings Nýflæmska bandalagsins þar sem hún ákvað að samþykkja samkomulagið í Marrakech. Leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafa hafnað því að styðja minnihlutastjórn hans.

Michel hefur varið Marrakech-samkomulagið og sagt það fela í sér möguleika á betri samvinnu Evrópuríkja og alþjóðasamfélagsins þegar kemur að innflytjendum og flóttafólki. 

Ísland samþykkti samkomulagið með fyrirvörum á dögunum, en Bandaríkin, Austurríki, Ungverjaland, Pólland, Ítalía og Slóvakía voru meðal þeirra ríkja sem neita að gangast undir það.