Bill Franke: Wow air er sterkt vörumerki með mikla möguleika

Bill Franke, aðaleigandi Indingo Partners.

Sendinefnd bandaríska flugfjárfestingasjóðsins Indigo Partners hélt af landi brott í dag eftir tveggja daga viðræðulotu með forsvarsmönnum Wow air og vinnu við áreiðanleikakönnun. Viðræðurnar eru sagðar hafa gengið vel, en leysa þarf úr þremur lykilþáttum í áframhaldandi vinnu.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem samningsaðilar sendu frá sér. Tilkynnt var fyrir helgi um fjárfestingu Indigo í Wow, en fyrirvari gerður um niðurstöður áreiðanleikakönnunar.

Forsvarsmenn Indigo funduðu með Skúla Mogensen, forstjóra Wow og öðrum lykilstjórnendum félagsins og fóru yfir rekstrarstöðu félagsins og sóknarmöguleika þess til framtíðar. Gangur er í viðræðunum og báðir aðilar vinna nú að því að sigla fjárfestingunni í höfn, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Þar segir ennfremur að þau þrjú atriði sem enn standi út af borðinu snúi að leiðakerfi Wow air, leigusamningum um flugvélar félagsins og samningum við eigendur skuldabréfa á félagið um ákvæði og skilmála í lánasamningum.

„Þetta hafa verið tveir góðir dagar með hnitmiðuðum viðræðum um núverandi rekstur Wow og hvernig við getum hugsað okkur hann til framtíðar. Wow air hefur á að skipa mjög dugmiklu starfsfólki og sterku vörumerki sem á töluverða möguleika til framtíðar,“ segir Bill Franke, stjórnarmaður og aðaleigandi Indigo Partners. Hann er jafnframt stjórnarformaður Wizz air.

„Við erum mjög ánægð með heimsókn Indigo Partners og það er ljóst að við getum margt lært af Bill Franke og hans fólki í því hvernig byggja á upp vel rekið lággjaldaflugfélag. Ég held að við gætum ekki fundið betri og reyndari samstarfsaðila til þess að taka Wow upp á næsta stig í rekstri,“ segir Skúli Mogensen í tilkynningu frá samningsaðilum.